Á ríkisstjórnarfundi í dag lagði Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra fram tvö mál sem snerta dómara við Landsrétt. Fyrra málið snerist um að veita Ásmundi Helgasyni lausn frá embætti dómara við réttinn, hið síðara um að skipa sama Ásmund Helgason sem dómara við Landsrétt.
Dómnefnd um hæfi fjögurra umsækjenda um skipun í embætti dómara við Landsrétt skilaði þeirri niðurstöðu í síðustu viku að Ásmundur voru hæfastur umsækjenda.
Fjórir sóttu um stöðuna: Ásmundur og Ragnheiður Bragadóttir, sem eru bæði dómarar við Landsrétt, Sandra Baldvinsdóttir, settur dómari Í Landsrétti, og Ástráður Haraldsson, héraðsdómari.
Ásmundur og Ragnheiður voru bæði á meðal þeirra fjögurra einstaklinga sem voru ekki metin á meðal 15 hæfustu í hæfnismati dómnefndar þegar dómarar voru upphaflega skipaðir í Landsrétt í aðdraganda stofnunar hans, en voru samt sem áður skipuð í embætti við réttinn. Það gerðist eftir að Sigríður Á. Andersen, þáverandi dómsmálaráðherra, ákvað að víkja frá hæfnismati dómnefndar og tilnefna fjóra einstaklinga dómara sem nefndin hafði ekki metið á meðal 15 hæfustu og þar af leiðandi að skipa ekki fjóra aðra sem nefndin hafði talið á meðal þeirra hæfustu. Alþingi samþykkti þetta í byrjun júní 2017.
Niðurstaða ráðuneytisins að það mætti skipa þegar skipaðan dómara
Í umsögn dómnefndar í síðustu viku kom fram að dómsmálaráðuneytið hafi tekið sérstaklega til athugunar hvort lög stæðu í vegi fyrir því að umsóknir Ásmundar og Ragnheiðar, sem þegar hafa skipun í Landsrétt, yrðu teknar til meðferðar. Niðurstaða ráðuneytisins var sú að svo væri ekki. Því lagði dómnefndin mat á hæfi allra umsækjendanna. Kjarninn greindi frá því í byrjun febrúar að lögfræðingar innan dómsmálaráðuneytisins hefðu framkvæmt athugunina. Ekki var leitað álits utanaðkomandi sérfræðinga.
Ásmundur hefur ekki sinnt Landsdómarastörfum í rúmt eitt ár, eða frá því að dómur Mannréttindadómstóls Evrópu féll. Störf hans sem Landsréttardómari eru hins vegar metin þegar tekin er saman reynsla af dómstörfum sem vigta inn í niðurstöðu dómnefndar um hæfi, enda hafði hann starfað við réttinn frá byrjun árs 2018. Með nýrri skipan getur hann hafið dómstörf að nýja
Með nýrri skipun Ásmundar í embætti dómara við Landsrétt verður önnur laus staða við réttinn. Hinir þrír dómararnir sem hafa ekki mátt dæma í Landsrétti í rúmt ár geta sótt um hana og fengið, telji dómnefnd og ráðherra þá hæfasta til starfans.