Má ég fara til læknis í samkomubanni? En til tannlæknis? Hvað með sjúkraþjálfun? Mega börnin mín hitta frændsystkini úr öðrum skólum? Og má ég knúsa barnið mitt og maka?
Þær eru margar spurningarnar sem vakna í „fordæmalausum“ aðstæðum líkt og þeim sem nú eru á Íslandi. Gott er að rifja upp af hverju samkomubann var sett á og hvað má og hvað má ekki gera á meðan það er í gildi.
Samkomubanni var upphaflega komið á 15. mars í þeim tilgangi að stemma stigu við útbreiðslu veirunnar sem veldur COVID-19 sjúkdóminum. Markmið yfirvalda er að fækka smitum og hægja á faraldrinum enn frekar til að auðvelda heilbrigðiskerfinu að hlúa að þeim sem veikjast af COVID-19 ásamt því að sinna annarri bráðaþjónustu. Í þessu skyni var ákveðið að herða enn frekar aðgerðir þann 24. mars.
En hvað mun samkomubannið vara lengi?
Samkomubannið gildir til mánudagsins 13. apríl en sóttvarnarlæknir hefur lagt það til við heilbrigðisráðherra að það verði framlengt til aprílloka.
Hvaða áhrif hefur samkomubann á minni vinnustaði?
Á þeim vinnustöðum þar sem færri en 20 manns vinna er mælst til þess að haga vinnurými þannig að hægt sé að hafa 2 metra á milli fólks. Gott er að leitast við að takmarka samneyti á vinnustöðum og nýta fjarvinnu eins og kostur er.
Þarf að loka stórum vinnustöðum í samkomubanninu?
Allir vinnustaðir þurfa að tryggja að ekki séu fleiri en 20 í sama rými á hverjum tíma og að hægt sé að hafa 2 metra á milli þess fólks sem eru í vinnu.
Hvernig er skólahaldi háttað í samkomubanninu?
Töluverðar takmarkanir eru á skólahaldi á meðan á samkomubanninu stendur. Í mörgum tilfellum geta nemendur ekki mætt í skólabyggingar heldur stunda nám í fjarkennslu. Í öðrum tilfellum eru strangar kröfur settar um fjölda og nálægð nemenda.
Takmarkanirnar gilda um leikskóla, grunnskóla, framhaldsskóla og háskóla en einnig aðrar menntastofnanir, frístundaheimili, félagsmiðstöðvar og íþróttastarf.
- Framhaldsskólabyggingar og háskólabyggingar eru lokaðar og kennsla fer fram í fjarkennslu eins og hægt er.
- Grunnskólar mega hafa kennslu í skólabyggingum ef þeir tryggja að ekki séu fleiri en 20 nemendur í sömu kennslustofu og að nemendur blandist ekki milli hópa, til dæmis í mötuneyti eða frímínútum. Eins þarf að þrífa eða sótthreinsa skólabyggingarnar eftir hvern dag.
- Leikskólar mega hafa opið og halda uppi leikskólastarfi ef þeir tryggja að börn séu í fámennum hópum og aðskilin eins og kostur er. Eins þarf að þrífa eða sótthreinsa leikskólabyggingarnar eftir hvern dag.
- Hlé er gert á íþrótta- og æskulýðsstarfi barna og ungmenna, sem felur í sér blöndun hópa, nálægð við aðra og snertingu.
- Skólafélagar sem ekki eru í sama hópi í skólastarfinu ættu ekki að vera í návígi utan skóla.
Hvað munu takmarkanir á skólastarfi vara lengi?
Þessar takmarkanir verða í stöðugu endurmati þannig að hægt sé að draga úr þeim eða þá lengja tímabilið sem þær gilda ef þörf þykir.
Af hverju er framhalds- og háskólum lokað en ekki grunn- og leikskólum?
Lítið er um að börn og ungmenni fái alvarleg einkenni vegna COVID-19 og þau verða sjaldnar alvarlega veik en fullorðnir. Eldri nemendur eru einnig í betri aðstöðu til þess að sinna fjarnámi en yngri nemendur. Skólarnir eru samfélagslega mikilvægir og brýnt að nemendur hafi tækifæri til þess að sinna sínu námi, þó námsfyrirkomulagið kunni að breytast tímabundið.
Hvernig á að haga leikjum barna við vini og félaga utan skólatíma?
Það er mikilvægt að forráðamenn barna dragi úr fjölda einstaklinga í tengslaneti barna sinna utan skólatíma. Hér eru ítarlegri leiðbeiningar:
- Skólafélagar sem ekki eru í sama hópi í skólastarfinu ættu ekki að vera í návígi utan skóla.
- Hafi börnin þroska til að fara eftir leiðbeiningum sem snúa að minni snertingu við vini er ekki útilokað að þau geti hist í leikjum. Leikirnir mega ekki fela í sér beina snertingu, notkun á sameiginlegum leikföngum eða búnaði sem snertur er með berum höndum.
- Börn og ungmenni ættu ávallt að þvo sér vel um hendur bæði áður en þau hitta félaga sína og eftir að þau koma heim.
- Fjölskyldur ættu að hafa í huga að ef börnin umgangast mikið vini eða frændsystkini úr öðrum skólum eða skólahópum þá verður til tenging milli hópa sem annars væru aðskildir. Slíkt ætti að forðast eins og kostur er.
- Fjölskyldur eru hvattar til að nýta sér tæknina til að halda góðum tengslum við ástvini sem eru í áhættuhópum vegna COVID-19 sýkinga, eldra fólk og fólk með undirliggjandi sjúkdóma.
- Einnig væri hægt að nota tækifærið að kenna börnunum að skrifa sendibréf og æfa í leiðinni skrift, stafsetningu, virkja ímyndunaraflið og hugsa í lausnum þegar kemur að samskiptum við ástvini okkar.
- Og varðandi heimili þar sem sumir eru í sóttkví en aðrir ekki:
Varðandi heimili þar sem sumir eru í sóttkví en aðrir ekki:
- Börn sem hafa þroska og getu til að sinna eigin hreinlæti og halda viðeigandi fjarlægð við foreldra sem eru í sóttkví sem og við skólafélaga geta áfram sinnt námi í skólastofu. Mikilvægt er að gæta að hreinlæti t.d. nota sér salernisaðstöðu.
- Foreldrar stálpaðra barna sem eru í sóttkví og geta haldið viðeigandi fjarlægð frá börnunum meðan á sóttkví stendur geta áfram sinnt vinnu á vinnustað ef fjarvinna er ekki í boði.
- Heimilið verður allt að fara í sóttkví ef börn hafa ekki þroska eða getu til að virða þær ráðstafanir sem gilda í sóttkví. Önnur leið til að leysa slíkt væri ef þeir sem ekki eru í sóttkví færu eitthvað annað á meðan á henni stendur.
Hvað með fólk á sama heimili?
Tveggja
metra reglan gildir líka í samskiptum við fjölskyldu og vini, hvort sem fólk
hittist úti eða inni. „Við höfum aðeins séð þetta að vinahópar eru að hittast
og spila og gleyma sér og hafa gaman, eins og við viljum gera, en þá er
hópurinn kominn saman og svo fer einhver heim til sín og þar er til dæmis
einhver mamman orðin fullorðin eða er með undirliggjandi sjúkdóma eða eitthvað
slíkt, og þá er maður hugsanlega búinn að taka smithættu með sér inn á
heimilið, þannig að við þurfum alltaf að vera að hugsa um þetta,“ sagði Víðir Reynisson,
yfirlögregluþjónn hjá almannavörnum í samtali við RÚV. Það margfaldi
smithættuna ef fólk virðir ekki þessi tveggja metra mörk í samskiptum.
Þetta eigi líka við þegar fólk fer saman í göngutúr eða aðra útivist, alltaf þurfi að gæta að tveggja metra reglunni til að fyrirbyggja smit.
Víðir segist til dæmis bara knúsa þá úr fjölskyldunni sem búa á sama heimili og hann. „Ég knúsa konuna mína og dóttur mína, við búum á sama heimilinu og við erum þétt saman alla daga, en ég knúsa ekki son minn og tengdadóttur því að þau eru á öðru heimili. Þannig að við heilsumst bara úr tveggja metra fjarlægð og það verður gott í sumar að knúsa þau.“
Hvað með sundlaugar, líkamsræktarstöðvar, sólbaðsstofur o.fl. í samkomubanni?
Allar sundlaugar eru lokaðar.
Allar líkamsræktarstöðvar eiga að vera lokaðar, hvort sem þær eru með tæki (eins og í tækjasölum), sameiginleg lóð eins og í crossfit-sal, eða annan sameiginlegan búnað.
Sólbaðsstofur eiga að vera lokaðar og gildir þá einu þótt hægt sé að hafa tveggja metra bil á milli fólks. Ástæðan er mikil smithætta af sameiginlegum búnaði.
Allar tattústofur skulu vera lokaðar og allar nuddstofur.
Er allt skemmtanahald bannað í samkomubanni?
Skemmtanir með fleiri en 20 manns eru bannaðar. Því er ljóst að svigrúm til skemmtanahalds er lítið sem ekkert. Sé engu að síður um minni samkvæmi að ræða er mikilvægt að virða regluna um að hafa a.m.k. tveggja metra fjarlægð á milli fólks.
Nær samkomubannið til útisamkoma?
Já. Um slíkar samkomur gilda sömu reglur og fyrir samkomur sem haldnar eru innandyra, bæði hvað varðar fjölda og hversu mikið pláss þarf að vera hægt að hafa milli fólks.
Geta trúarlegar athafnir farið fram í samkomubanni?
Takmörkun á samkomum tekur einnig til trúarathafna, séu þar samankomnir fleiri en 20 manns, þar með taldir þeir sem stýra athöfninni. Um getur verið að ræða útfarir, giftingar, fermingar, skírnir og sambærilegar athafnir, hvort sem er í kirkju eða á öðrum stöðum. Í reynd þýðir þetta að lítið sem ekkert svigrúm er til hefðbundinna athafna af þessu tagi.
Geta veislur farið fram í samkomubanni?
Veislur, matarboð og öll önnur tilefni þar sem fólk kemur saman í heimahúsi, í veislusölum, utandyra eða á öðrum stöðum eru bannaðar séu fleiri en 20 manns viðstaddir. Við minni samkvæmi þarf að tryggja að fjarlægð á milli einstaklinga sé a.m.k. 2 metrar.
Geta íþróttaviðburðir farið fram í samkomubanni?
Allt íþróttastarf barna og fullorðinna þar sem nálægð er minni en tveir metrar eða einhver sameiginleg notkun á búnaði er fyrir hendi er bannað. Þetta á líka við um stærri búnað, s.s. skíðalyftur.
Hvað með verslanir í samkomubanni?
Ekki stendur til að loka verslunum en verslanir þurfa að gæta að því að ekki séu fleiri en 20 einstaklingar inni í verslunarrýminu á sama tíma.
Undantekningin er matvöruverslanir og lyfjabúðir sem mega hafa allt að 100 manns inni í einu að því gefnu að gætt sé að því að tveir metrar séu á milli einstaklinga. Þá er matvöruverslunum sem eru yfir 1.000 fermetrar að stærð heimilt að hleypa til viðbótar einum viðskiptavini inn fyrir hverja 10 fermetra umfram 1.000 fermetra, þó að hámarki 200 viðskiptavinum í allt.
Gott er að hafa í huga að bara einn frá hverju heimili fari í verslunina, að vera skipulögð í innkaupunum með innkaupalista, gæta að því að standa ekki of þétt saman í röðum og virða 2 metra regluna milli einstaklinga.
Get ég farið í klippingu og á snyrtistofur?
Nei, hárgreiðslustofum og snyrtistofum hefur verið lokað.
Get ég farið í nudd og sjúkraþjálfun?
Nuddstofum og annarri slíkri starfsemi þar sem nálægð er mikil hefur verið lokað. Þurfir þú á mikilvægri sjúkraþjálfun að halda vegna endurhæfingar er heimilt að veita hana með skilyrðum um öflugar sóttvarnaráðstafanir.
Get ég farið til læknis eða tannlæknis þrátt fyrir samkomubann?
Já, en aðeins ef brýna nauðsyn ber til. Samkvæmt hertum reglum í samkomubanni frá og með 24. mars er starfsemi og þjónusta sem krefst snertingu milli fólks eða mikillar nálægðar óheimil. Þetta á þó ekki við um nauðsynlega heilbrigðisþjónustu, sem ekki getur beðið. Fólk er því hvatt til að fresta öllum valkvæðum læknisheimsóknum eða aðgerðum sem mega bíða.
Ef grunur vaknar um mögulegt COVID-19 smit á alls ekki að fara beint til læknis eða á heilsugæsluna heldur hringja í símanúmerið 1700 sem er opið allan sólarhringinn, í símanúmer heilsugæslunnar sem er opin á dagvinnutíma eða nota netspjallið á vefsvæðinu heilsuvera.is.
Hvað fellur ekki undir samkomubann?
Samkomubannið nær ekki til alþjóðaflugvalla eða alþjóðahafna, flugvéla eða skipa. Hvatt er til öflugra sóttvarnaráðstafana og að rekstraraðilar grípi til ýtrustu ráðstafana til að minnka möguleika á smiti.
Hvað gerist ef maður brýtur gegn skyldum um sóttkví?
Ef brotið er gegn gildandi reglum um sóttkví er hægt að sekta fólk um 50-150 þúsund krónur. Enn hærri sektir liggja við því að brjóta gegn reglum um einangrun, en gerist fólk sekt um slíkt gætu sektir orðið á bilinu 150-500 þúsund krónur. Ríkissaksóknari segir að í sumum tilvikum gæti slík háttsemi verið það alvarleg að fyrir bæri að refsa samkvæmt ákvæðum hegningarlaga.
Sjá nánar hér.
En ef maður brýtur gegn reglum um samkomubann?
Sé brotið gegn gildandi reglum um fjöldasamkomur, segir ríkissaksóknari, er heimilt að sekta hvern og einn einstakling sem sækir samkomuna um 50 þúsund krónur. Þá er heimilt að sekta þann sem er í forsvari fyrir eða skipuleggur samkomuna um 250-500 þúsund krónur.
Þá getur sekt fyrir að brjóta gegn reglum um lokun samkomustaða eða starfsemi vegna sérstakrar smithættu numið á bilinu 100-500 þúsund krónum, samkvæmt fyrirmælum ríkislögreglustjóra.
Upplýsingarnar sem greinin byggir á eru aðallega fengnar af vefnum Covid.is