Stuðningur við ríkisstjórnina hefur ekki mælst hærri í tvö ár, samkvæmt nýjum þjóðarpúlsi Gallup. Hann eykst um 11,2 prósentustig frá könnun sem gerð var í lok febrúar og er nú 59,4 prósent.
Síðast mældist hann í þessum hæðum í lok mars 2018, þegar ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur hafði einungis setið að völdum í fjóra mánuði.
Sjálfstæðisflokkurinn er stærsti flokkur landsins samkvæmt nýja þjóðarpúlsinum með 23,5 prósent fylgi. Hann eykur fylgi sitt um 1,5 prósentustig milli mánaða. Hinir stjórnarflokkarnir tveir bæta líka við sig fylgi. Vinstri græn fara úr 11,9 í 13,3 prósent og Framsóknarflokkurinn úr sjö prósentum sléttum í 8,1 prósent. Samanlagt fylgi ríkisstjórnarflokkanna er því fjórum prósentustigum hærra en það var fyrir mánuði og sú fylgisaukning drefist nokkuð jafnt á flokkanna þrjá.
Samfylkingin bætir eilítið við sig og mælist nú með 15,1 prósent fylgi, Píratar dala aðeins og mælast með 10,2 prósent, og Viðreisn bætir við sig tæpu prósentustigi og mælist með 11,1 prósent fylgi.
Flokkur fólksins stendur nánast í stað milli kannana og mælist með 4,2 prósent stuðning.
Niðurstöður sem hér birtast um fylgi flokkanna á landsvísu eru úr netkönnun sem Gallup gerði dagana 2. til 29. mars 2020. Heildarúrtaksstærð var 10.352 og
þátttökuhlutfall var 54,8 prósent. Vikmörk á fylgi við flokka eru 0,1-1,3 prósent. Einstaklingar í úrtaki voru handahófsvaldir úr Viðhorfahópi Gallup. Vert er að taka fram að þetta er önnur könnunin sem Gallup gerir í marsmánuði.