Fjármálaeftirlitið hefur veitt Samherja Holding, annars hluta Samherjasamstæðunnar undanþágu frá yfirtökutilboðsskyldu í Eimskip þar sem eftirlitið telur „að núverandi aðstæður á fjármálamarkaði í ljósi Covid-19, bæði hér á landi og í heiminum öllum, séu með þeim hætti að skilyrði 5. mgr. 100. gr. verðbréfaviðskiptalaga um sérstakar aðstæður séu uppfyllt.
Fjármálaeftirlitið telur að verndarhagsmunir yfirtökureglna laganna séu tryggðir og að með veitingu undanþágu frá tilboðsskyldu sé, eins og atvikum málsins er háttað, ekki gengið á minnihlutavernd annarra hluthafa.“
Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallar Íslands.
Björgólfur Jóhannsson, annar forstjóri Samherjasamstæðunnar, segir að það séu mjög sérstakar og óvenjulegar aðstæður á fjármálamarkaði. „Við töldum því ekki skynsamlegt að tilboð um yfirtöku færi fram í skugga þessa umróts en við vonum að aðstæður verði heppilegri síðar. Eins og við höfum sagt áður þá hefur trú okkar á framtíð Eimskips ekkert breyst.“
Samherji Holding seldi sig í kjölfarið niður fyrir 30 prósenta markið í Eimskip.
Samstæða með mikla fjárfestingagetu
Hluthafafundir Samherja samþykkti 11. maí 2018 að Samherjasamstæðunni yrði skipt upp í tvennt. Skiptingin var látin miða við 30. september 2017. Eftir það er innlendu starfsemin og starfsemi fyrirtækisins í Færeyjum undir hatti Samherja hf. en önnur erlend starfsemi og hluti af fjárfestingarstarfsemi á Íslandi í félaginu Samherji Holding ehf. Á meðal þeirra eigna sem færðar voru þangað yfir voru eignarhlutir Samherja í dótturfélögum í Þýskalandi, Noregi, Bretlandi og í fjárfestingafélagi á Íslandi.
Sameiginlegt eigið fé félaganna tveggja sem mynda Samherjasamstæðuna, og eitt stærsta fyrirtæki á Íslandi, var 111 milljarðar króna í lok árs 2018. Fjárfestingageta þeirra er því mikil.
Félögin tvö stunda ekki einungis viðskipti með sjávarafurðir. Samherji hf. á til að mynda stóran hlut í smásölurisanum Högum, en það er sjötti stærsti hluthafi þess með 4,22 prósent eignarhlut. Samherji Holding ehf. er síðan stærsti einstaki eigandi hlutabréfa í Eimskip, með nú 30,11 prósent eignarhlut. Baldvin Þorsteinsson, sonur Þorsteins Más og framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar hjá Samherja, er stjórnarformaður Eimskips og í janúar í fyrra var Vilhelm Már Þorsteinsson, frændi þeirra, ráðinn sem forstjóri skipafélagsins.