„Ferðumst innanhúss um páskana,“ sagði Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, á upplýsingafundi almannavarna í dag. „Það er mjög mikilvægt þegar svona mikið mæðir á heilbrigðiskerfinu og við erum að beina öllu okkar að COVID-19 að við þurfum ekki líka að glíma við hópslys eða annað.“
Páll sagðist hafa heyrt af því að fólk væri farið að skipuleggja ferðalög um landið um páskana. „Það er vond hugmynd. Ekki gera það. Besta hugmyndin er að ferðast innanhúss.“
Hann sagði gríðarlega mikilvægt að sýna nú biðlund. Það þurfi þolgæði til að ljúka faraldrinum. „Við þurfum að nota alla okkar orku í að sinna covid-faraldrinum.“
Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, sagði að ekki stæði til að herða reglur um samkomubann um páskana en að ekki yrði hikað við það ef þörf krefði. „Við viljum frekar biðla til fólks og höldum að það muni virka.“
Hann sagðist hafa verulegar áhyggjur af því að fólk legðist í ferðalög um páskana. „Því fleiri sem eru á ferðinni þeim mun meiri líkur eru á slysum og pressa eykst á heilbrigðiskerfið sem er mjög þanið fyrir.“
Ef fólk safnast saman í sumarhúsabyggðum í þúsundavís, þar sem heilbrigðisþjónusta er af skornum skammti, bjóði það hættunni heim. Nefndi hann sem dæmi að heilbrigðisstofnanir í Árnessýslu væru ekki byggðar upp til að sinna þúsundum nýrra íbúa í þessu ástandi.
Hætta á að fólk gleymi sér
En fleira komi til sem valdi áhyggjum. „Ef fólk fer að hópast mikið saman annars staðar en heima hjá sér er aukin hætta á því að það gleymi reglunum sem það hefur tamið sér undanfarið,“ sagði Víðir og nefndi sem dæmi það að heilsast ekki eða snertast og að halda tveggja metra fjarlægð frá næsta manni. „Ef fólk er allt í einu komið í nýtt umhverfi, til dæmis upp í sumarbústað, er hætta á að það gleymi sér og þá eykst smithætta.“
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir hefur sagt að fólk geti verið einkennalaust í viku og jafnvel lengur eftir að hafa smitast. Á þessu tímabili getur það þó smitað aðra. Þetta er stóra hættan þegar fólk safnast saman.
Víðir sagðist þekkja til vélsleðamanna sem eflaust væri farið að klæja í fingurna að komast á sleða uppi á hálendi. „En ég held að langflestir þeirra hugsi sér að bóna bara sleðann um páska og ferðast innanhúss.“
Víðir minnti á að við erum „langt frá því komin yfir hólinn“.
Hann lauk svo fundinum á hvatningarorðum eins og vanalega: „Við skulum halda áfram að vera í þessu saman. Við sjáum fréttir af fólki sem er að gera mistök og hegða sér einkennilega. Við skulum vera með náungakærleikann að vopni, tala saman og vera kurteis.“