Samtök atvinnulífsins (SA) og Alþýðusamband Íslands (ASÍ) hafa átt í óformlegum viðræðum um nokkurt skeið um málaleitan samtakanna um að leita leiða til að draga tímabundið úr launakostnaði fyrirtæki. Þá sendi SA formlegt erindi þess efnis til samninganefndar ASÍ á mánudag, 30. mars, sem nú hefur verið hafnað með því afdráttarlausa svari að verkalýðshreyfingin ljái ekki máls á tímabundinni lækkun launakostnaðar.
Þetta kemur fram á vef SA.
Í formlega erindinu sem sent var á mánudag segir meðal annars að heimsfaraldurinn COVID-19 hafi lamað íslenskt samfélag og atvinnulíf. „Stór hluti atvinnustarfsemi um heim allan hefur stöðvast. Tekjugrundvöllur fjölmargra íslenskra fyrirtækja hefur algjörlega brostið. Stjórnvöld grípa til aðgerða til að koma í veg fyrir fjöldagjaldþrot fyrirtækja og fordæmalausa fjölgun atvinnulausra.“
Segja launakostnaðinn aukast um 50 milljarða á ári
Á vef SA er bent á að við lok dags í gær hefðu 25 þúsund umsóknir um hlutaatvinnuleysisbætur borist Vinnumálastofnun. Ríflega helmingur þeirra miðar við að Atvinnuleysistryggingasjóður greiði 75 prósent af launum starfsmanna en að þeir haldi 25 prósent starfshlutfalli hjá atvinnurekanda.
Samkvæmt gerðum kjarasamningum, tengdum Lífskjarasamningnum, eiga laun á almennum vinnumarkaði að hækka að lágmarki um 24 þúsund krónur í dag hjá þeim lægst launuðustu og um 18 þúsund krónur hjá hærri launum, í dag þann 1. apríl.
SA segir að sú launahækkun auki launakostnað alls atvinnulífsins um 50 milljarða króna á ársgrundvelli, eða fjóra milljarða á mánuði.
Ákvörðun ASÍ um að hafna því að milda eða fresta hækkunaráhrifum Lífskjarasamningsins veldur SA vonbrigðum. „Launahækkunin 1. apríl stuðlar að fleiri uppsögnum starfsfólks en annars hefði orðið. Tímabundin lækkun mótframlags í lífeyrissjóði hefði mildað verulega höggið sem fyrirtækin verða fyrir vegna launahækkunarinnar ofan á gjörbreytta efnahagsstöðu. Tímabundin lækkun lífeyrissjóðsframlags atvinnurekenda hefði mildað höggið
Í framhaldi óformlegra þreifinga síðustu vikna sendu SA formlegt erindi til samninganefndar ASÍ þann 30. mars. Svar verkalýðshreyfingarinnar er að ljá ekki máls á tímabundinni lækkun launakostnaðar. Af samtölum mátti ráða að ekki næðist breið sátt um að fresta að hluta eða öllu leyti umsömdum launahækkunum en SA bundu þó vonir við að sátt gæti náðst um tímabundna lækkun framlags atvinnurekenda í lífeyrissjóð úr 11,5 prósent í 8 prósent. Í svari samninganefndar ASÍ er þeirri leið einnig hafnað.“