Stjórnvöld hafa birt lista yfir þau fyrirtæki sem hafa fengið undanþágu frá samkomubanni svo unnt sé að halda starfsemi þeirra órofinni. Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra veitir slíka undanþágu eftir samráð við sóttvarnalækni, almannavarnadeild ríkislögreglustjóra og Matvælastofnun. Undanþágan tekur til fyrirtækja í stóriðju, sjávarútvegi, matvælaframleiðslu og annarri mikilvægri starfsemi.
Fyrirtækin sem starfa á grundvelli undanþágu eru meðal annars Íslandspóstur, Mjólkursamsalan (MS), Matfugl, Alcoa á Reyðafirði, Norðurál á Grundaratanga, Terra í Hafnarfirði og Elkem á Grundartanga.
Þá hafa nokkur sjávarútvegsfyrirtæki fengið undanþágu. Þau eru Brim hf. og Fiskkaup hf. í Reykjavík, Fiskvinnslan Íslandssaga hf. á Suðureyri, Guðmundur Runólfsson hf. á Grundarfirði, Hraðfrystihúsið Gunnvör hf. á Hnífsdal, Ísfélag Vestmannaeyja hf. og Vinnslustöðin í Vestmannaeyjum, Nesfiskur ehf. í Garði, Oddi hf., á Patreksfirði, Þorbjörn hf. í Grindavík, Samherji ehf. og Útgerðarfélag Akureyringa ehf. á Akureyri og Dalvík og Skinney-Þinganes hf. á Hornafirði.
Þá hafa Bændasamtök Íslands átt fund með heilbrigðisráðuneytinu vegna mögulegrar undanþágu vegna aðildarfélaga sinna en ekki liggur fyrir hvort einhverjir falli undir þá undanþágu og þurfi eða sjái sér fært að nýta hana.
Viðmiðin sem horft er til miðast við að um sé að ræða „samfélagslega ómissandi innviði sem mega ekki stöðvast vegna lífsbjargandi starfsemi, svo sem raforku, fjarskipta, samgangna, heilbrigðisstarfsemi, löggæslu, sjúkraflutninga og slökkviliða. Önnur starfsemi sem mögulega getur fallið undir heimild til undanþágu skv. auglýsingu heilbrigðisráðherra um takmarkanir á samkomum er starfsemi fyrirtækja sem telst kerfislega og efnahagslega mikilvæg, svo sem til að tryggja innviði, sorphirðu, aðföng, mætvælaframleiðslu, flutninga matvæla, lyfja og annarra nauðsynjavara eða efnahagslegt öryggi ríkisins með útflutningi.“