Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR sagði sig úr miðstjórn Alþýðusambands Íslands (ASÍ) strax á mánudaginn og telur að kröftum sínum sé að svo stöddu ekki vel varið í að taka þátt í starfi innan sambandsins. Þetta segir hann í samtali við Kjarnann.
„Ég ætla bara að einbeita mér að mínu félagi og mínum félögum fyrst og fremst og ég sé ekki tilgang í að eyða frekari orku í að vinna að einhverjum lausnum á þessum vettvangi,“ segir Ragnar Þór.
Verkalýðsforinginn segir ágreining hafa verið uppi innan raða ASÍ um hver viðbrögð sambandsins við því grafalvarlega ástandi sem COVID-19 faraldurinn hefur í för með sér fyrir ættu að vera. Ragnar Þór og Vilhjálmur Birgisson formaður Verkalýðsfélags Akraness, sem var 1. varaforseti ASÍ þar til í dag, hafa báðir sagt sig frá störfum fyrr ASÍ í kjölfarið.
Vilhjálmur sagði á Facebook í dag að Drífa Snædal forseti ASÍ hefði lagt til að umsömdum launahækkunum á vinnumarkaði, sem taka gildi í dag, yrði frestað.
„Það var lagt til að fresta kauphækkunum. Það kom ekki til greina af okkar hálfu. Okkar sýn hefur alltaf verið sú að verja kaupmáttinn, verja launahækkunina og verja störfin,“ segir Ragnar Þór, en slíkum tillögum úr ranni VR segir hann hafa verið hafnað af samninganefnd ASÍ.
Versta mögulega leiðin valin
Alþýðusambandið hefur að undanförnu verið í óformlegum viðræðum við forsvarsmenn atvinnulífsins um einhverja lausn til þess að milda höggið af COVID-19 faraldrinum fyrir fyrirtækin og launafólk í landinu. Bæði Ragnar Þór og Vilhjálmur voru tilbúnir til þess að fallast á lækka mótframlög atvinnurekenda í lífeyrissjóði starfsmanna sinna yrðu lækkuð úr 11,5 prósent í 8 prósent, tímabundið.
Ragnar Þór segir að í stað þess að fara aðra hvora þessara leiða hafi ASÍ á endanum ákveðið að „gera ekki neitt“, sem hann segir vera verstu mögulegu leiðina að mati VR.
ASÍ hafnaði í dag formlegri beiðni Samtaka atvinnulífsins um bæði frestun kauphækkana og beiðni um lækkun mótframlags atvinnurekenda í lífeyrissjóði starfsmanna.
Segir stjórnvöld hafa lýst sig tilbúin að skoða þak á verðbætur verðtryggðra lána
„Við teljum það bara einfaldlega ekki í boði að gera ekki neitt,“ segir Ragnar Þór og bætir við að hann hafi talið ASÍ vera komið með „vilyrði fyrir því frá stjórnvöldum að fara í að verja heimilin með þaki á verðbætur á verðtryggðum lánum, sem almenningur hefur sárlega krafist af stjórnvöldum.“
Þetta segir Ragnar Þór þó ekki hafa verið í hendi. „En það var opnað á þann möguleika og fleiri úrræði, sem stjórnvöld voru tilbúin til þess að skoða ef að við hefðum náð saman að einhverri lausn. Nú er það bara frá og nú er þetta bara staðan og við bara tökumst á við hana,“ segir Ragnar.