„Það sem veldur mestum áhyggjum eru þessi veikindi og þetta álag á spítalana og gjörgæslurnar,“ sagði Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir á daglegum upplýsingafundi yfirvalda í Skógarhlíð í dag. Hann ætlar að mæla með því við heilbrigðisráðherra að núgildandi samkomubann verði framlengt út aprílmánuð.
Þórólfur sagði að við værum að fylgja verstu spálíkönum hvað alvarleg veikindi fólks varðar, en rúmlega fjörutíu manns liggja nú á spítölum vegna COVID-19 sýkingar, flestir í Reykjavík en einnig nokkrir á Akureyri.
Sóttvarnalæknir segir að við virðumst vera að ná að sveigja veldisvöxt sýkinga í samfélaginu niður, en þyrftum að halda áfram á sömu braut hvað sóttvarnaráðstafanir varðar, ekki síst í ljósi þess álags sem þegar er orðið á sjúkrahús landsins. Ellefu eru nú á gjörgæsludeild í Reykjavík og einn til viðbótar á Akureyri.
Óljóst hve langan tíma það mun taka að slaka á aðgerðum
„Núna reynir virkilega á úthaldið og samstöðuna,“ sagði Þórólfur og bætti við að hann ætti ekki von á því að slaka mætti á samkomubanninu og öðrum ráðstöfunum fyrr en eftir aprílmánuð og þá ætti eftir að koma í ljós í hversu mörgum skrefum það yrði gert eða hversu langan tíma það gæti mögulega tekið.
„Veiran mun ekki virða frídaga, hún mun ekki virða páska,“ sagði Þórólfur og hvatti fólk til þess fara eftir þeim leiðbeiningum sem eru í gildi.
Hann lagði sérstaka áherslu á að þeir sem væru eitthvað veikir, með hósta, kvef og hita, héldu sig algjörlega til hlés og færu ekki út á meðal fólks og væru alls ekki í snertingu við viðkvæma hópa.