„Við höfum alltaf sagt að það mikilvægasta til að takast á við þennan faraldur er mannskapur og skortur á heilbrigðisstarfsfólki er alþjóðlegur. Það er áætlað að það vanti 18 milljónir heilbrigðisstarfsmanna fram til ársins 2030 til að uppfylla grunnheilbrigðisþjónustu – og þar af er helmingurinn hjúkrunarfræðingar.“
Þetta sagði Alma Möller landlæknir á blaðamannafundi í dag. Hún benti á að ef eitthvað gott ætti að koma út úr þessum faraldri þá væri það ekki síst að meta mikilvægi heilbrigðisstarfsmanna.
„Ég vil sem landlæknir lýsa áhyggjum mínum af stöðu kjarasamninga hjúkrunarfræðinga og vil biðla til samninganefndar ríkisins og samninganefndar Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga að setjast nú að samningaborðinu. Ég veit að þau eru búin að vera þar mikið en það verður að leysa þessa deilu. Ég biðla því til ríkissáttasemjara einnig,“ sagði hún.
Hún sagði enn fremur að þessi óvissa sem ríkir vegna samningsleysis væri eitthvað „sem við gætum verið án“. Því það hefði auðvitað áhrif á mönnun næstu vikna.