Störf tapast nú í Bandaríkjunum sem aldrei fyrr. Á tveimur vikum hafa nærri því tíu milljón manns sótt um atvinnuleysisbætur þar í landi, þar af yfir 6,6 milljónir manna í síðustu viku, samkvæmt nýjustu tölum frá bandarísku vinnumálastofnuninni sem birtar voru í dag.
Met hafa því verið slegin hvað þetta varðar tvær vikur í röð, en í frétt New York Times segir að fyrra met hvað varðar fjölda atvinnuleysisumsókna í Bandaríkjunum á einni viku hafi verið frá árinu 1982, þegar um 695 þúsund umsóknir um atvinnuleysisbætur bárust á einni viku.
Þegar alþjóðlega fjármálakreppan fyrir röskum áratug síðan beit svo hvað harðast í upphafi árs 2009 sóttu um 665 þúsund manns um atvinnuleysisbætur á einni viku í marsmánuði, samkvæmt því sem fram kemur í frétt CNN.
Fjöldi bótaumsókna er tífaldur nú.
„Það sem gerist venjulega í kreppum á mánaða- eða ársfjórðungalöngu tímabili er nú að eiga sér stað á örfáum vikum,“ hefur New York Times eftir Michelle Meyer, aðalhagfræðingi Bank of America.
Í frétt blaðsins er einnig fjallað um það að líklega séu enn fleiri búnir að missa vinnuna en þessar ótrúlegu tölur bera með sér, þar sem víða sé álagið á vinnumálastofnanir einstaka ríkja svo mikið að færri komist að en vilji til þess að sækja um bætur, þar sem símalínur séu uppteknar og vefþjónar kikni undan álagi.