Nýting á herbergjum hótela í Reykjavík fór úr því að vera að meðaltali 72,3 prósent fyrstu vikuna í marsmánuði 2020 í að vera 2,1 prósent í síðustu viku mánaðarins. Tekjur hótela í borginni í síðustu vikunni í mars voru sömuleiðis einungis tvö prósent af tekjum þeirra í saman mánuði 2019.
Þetta kemur fram í nýrri Hagsjá Hagfræðideildar Landsbankans sem birt var í dag.
Ástæðan er auðvitað það ástand sem skapast hefur í heiminum vegna útbreiðslu veirunnar sem veldur COVID-19 sjúkdómnum, en vegna þess hafa helstu viðskiptalönd Íslands flest lokað landamærum sínum og ferðamenn hætt að ferðast.
Þar er bent á að stórar hótelkeðjur hér á landi hafi brugðið á það að ráð að loka hluta starfseminnar meðan mestu ferðatakmarkanirnar verða í gildi. Þannig hafi stærsta hótelkeðja landsins, Íslandshótel, tilkynnt að hún muni loka fimm af 17 hótelum sínum bæði innan og utan höfuðborgarsvæðisins. Icelandair Hotels og Center Hotels hafa einnig lokað hótelum tímabundið.
Í fyrra voru gistinætur Íslendinga tæplega tíu prósent af öllum gistinóttum á hótelum hérlendis, en það hlutfall er þó afar breytilegt eftir landsvæðum. Hagfræðideild Landsbankans telur að það verði athyglisvert að fylgjast með fjölgun gistinótta Íslendinga á innlendum hótelum þegar samkomubanni og fyrirmælum um takmörkun ferðalaga innanlands verður aflétt. „Upp frá því kann aukin gisting Íslendinga á hótelum að milda það högg sem brotthvarf erlendra ferðamanna mun valda.“