Sara Dögg Svanhildardóttir, bæjarfulltrúi í Garðabæ, sagði sögu sína af COVID-19 smiti á daglegum upplýsingafundi almannavarna og landlæknisembættisins í Skógarhlíð í dag, en henni er batnað fyrir allnokkru. Hún sagðist hafa gengið í gegnum „COVID-tilfinningarússíbana“ og nefndi að hún væri frekar vera að glíma við andleg eftirköst veirunnar en líkamleg.
Sara Dögg greindist í sýnatöku hjá Íslenskri erfðagreiningu, snemma í mars, þegar rétt rúmlega hundrað smit höfðu verið greind hér á landi. Hún hafði verið slöpp vikuna áður en hún fór í prófið, en sagði að henni hefði ekki grunað að hún væri með veiruna.
„Þetta var týpískur slappleiki, með miklu kvefi og höfuðverk og slíku. Ég taldi mig ekki vera veika og því síður óraði mig fyrir að ég væri með þessa veiru,“ sagði Sara Dögg, sem var nýkomin heim af bæjarstjórnarfundi þegar hún fékk símtal um að hún væri með veiruna. „Mér brá verulega,“ sagði Sara.
Hún telur að þegar hún greindist með veiruna hafi hún í raun verið komin inn í bataferlið og það gerði smitrakningaferlið flóknara. „Þar sem ég var orðin frekar frísk var þetta ansi langur tími sem við þurftum að rekja aftur og þess vegna, kæra þjóð, upp með þetta rakningar-app, allir,“ sagði Sara Dögg.
Alma Möller landlæknir greindi frá því á fundinum að 96 þúsund manns væru þegar búin að ná sér í appið, Rakning C-19, sem aðgengilegt er fyrir bæði iPhone og Android-síma.
Sara Dögg sagði það hafa verið flókið að reyna að rifja upp ferðir sínar aftur í tímann og að enn í dag sé hún að lenda í því að muna skyndilega eftir einhverjum sem hún hafði hitt en ekki munað eftir þegar hún sat með smitrakningarteyminu. Þá fyllist hún samviskubiti. Hún ræddi þetta samviskubit sérstaklega og sagðist viss um að aðrir sem hefðu smitast væru að upplifa það sama.
Stórt og mikið verkefni að vera með COVID-19
„Ég var ekkert síður bara hrædd um þann raunveruleika að einhver smitaðist af mér og það er kannski þessi stóra þunga tilfinning sem er erfið, alveg sama hvað við gerum við hana,“ segir Sara Dögg, sem ræddi um „sóttkvíarhópinn sinn“, en það kallar hún fólkið sem fór í sóttkví hennar vegna. Í þeim hópi var 93 ára gömul vinkona, sem Sara Dögg hafði hitt sama dag og hún fékk greininguna. Sara Dögg sagðist þó heppin, en hún veit ekki til þess að nokkur sem hún var í samskiptum við hafi smitast.
„Hún er mikil vinkona mín og við höfum talað saman í síma á hverjum einasta degi, hlæjum mikið saman og við erum mjög hvetjandi fyrir hvora aðra. Þannig að það hefur verið gríðarlega mikilvægt og þess vegna segi ég, samveran í hvaða formi sem hún er er gríðarlega mikilvæg,“ sagði Sara Dögg.
„Ég gæti talað held ég í allan dag um þetta, en þetta er stórt og mikið verkefni að vera með COVID-19,“ sagði Sara Dögg, sem kom því áleiðis til fólks að hugsa vel um þá sem eru smitaðir og sendi sömuleiðis baráttukveðjur til smitaðra og aðstandenda þeirra.