Boris Johnson forsætisráðherra Bretlands hefur verið lagður inn á spítala í London til skoðunar. Hann hefur verið með „þrálát einkenni“ COVID-19 sýkingar, þar á meðal háan hita, allt frá því hann greindist með veiruna fyrir tíu dögum síðan.
Samkvæmt frétt BBC, þar sem vitnað er til orða talskonu forsætisráðherrans, var Johnson lagður inn að læknisráði og er innlögn hans sögð varúðarráðstöfun.
Johnson, sem er 55 ára gamall, mun halda áfram að leiða ríkisstjórnina frá degi til dags þrátt fyrir að leggjast inn á spítala. Hann hefur verið í sóttkví heima hjá sér á Downing-stræti frá því að hann greindist með kórónuveirusmit.
„Forsætisráðherrann þakkar heilbrigðisstarfsfólki fyrir þeirra ótrúlegu elju og brýnir fyrir almenningi að halda áfram að fara eftir tilmælum ríkisstjórnarinnar um að halda kyrru fyrir heima, verja heilbrigðiskerfið og bjarga mannslífum,“ segir talskona forsætisráðherrans.
Á vef Guardian segir að blaðið hafi í liðinni viku fengið upplýsingar um að líðan forsætisráðherrans hefði hrakað mjög og að læknar sem hefðu meðhöndlað hann hefðu haft áhyggjur af öndun hans.
Á þeim tímapunkti, samkvæmt frétt Guardian, þvertóku talsmenn forsætisráðherrans þó fyrir að heilsa Johnson væri orðin verulega verri og sögðu að engar áætlanir væru uppi um að hann legðist inn á spítala.
Drottningin ávarpaði þjóðina
Fyrr í kvöld ávarpaði Elísabet Bretadrottning þjóðina í sjónvarpi. Hún sagði að sú áskorun sem Bretland stæði frammi fyrir nú væri ólík öðrum sem landið hefði tekist á við, en einnig að hún væri þess fullviss að ríki heims myndu í samvinnu ná árangri í baráttunni við vágestinn.
„Við ættum að sækja huggun í það að þó frekari raunir séu framundan, munu betri dagar brátt blasa við, við munum brátt vera með vinum á ný, við munum brátt vera með fjölskyldum okkar á ný, við munum hittast aftur,“ sagði drottningin, í innblásnu ávarpi sínu.