Boris Johnson forsætisráðherra Bretlands hefur verið lagður inn á gjörgæsludeild, en hann var lagður inn á spítala í gær með „þrálát einkenni“ COVID-19, sjúkdómsins sem kórónuveiran veldur.
Breska ríkisútvarpið BBC greinir frá þessu. Í yfirlýsingu frá skrifstofu forsætisráðherrans segir að ástand Johnson hafi versnað síðdegis í dag og að læknar hans hafi mælst til þess að hann yrði fluttur á gjörgæslu.
Á vef Guardian segir að Johnson sé með meðvitund og að flutningur hans á gjörgæsluna sé varúðarráðstöfun, fari svo að hann þurfi að öndunarvél að halda.
Dominic Raab utanríkisráðherra hefur verið beðinn um að hlaupa í skarðið fyrir Johnson og sinna skyldum forsætisráðherra á meðan staðan er svona.
Johnson, sem er 55 ára gamall, greindi frá því 27. mars síðastliðinn að hann væri með COVID-19 og hefur síðan þá verið í einangrun á heimili sínu á Downingstræti, eða allt þangað til hann var fluttur á spítala í gær.