Von er á næsta skemmtiferðaskipi til landsins þann 1. maí næstkomandi. Þetta kom fram í máli Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis á daglegum blaðamannafundi í dag. Hann segir það þó ekki vera ljóst hvort skipið muni koma til landsins eða hvernig því verði háttað nákvæmlega.
„En ég held að það sé algjörlega ljóst að við þurfum að endurskoða þessar reglur sem hafa verið í gangi um komu ferðamanna á skemmtiferðaskipum. Við þurfum að setja miklu strangari reglur ef við ætlum að hafa samræmi í því sem við erum að gera, bæði með strangar takmarkanir hér innanlands þá þurfum við að vera með það líka fyrir farþega á svona stórum skipum og reyndar túrista líka almennt,“ sagði Þórólfur.
Hann sagði að öll þessi mál væru í endurskoðun og myndu þau koma með niðurstöður úr þeirri skoðun fljótlega.
Vilja ekki fá faraldurinn í bakið aftur
Þórólfur sagði jafnframt mikla vinnu vera framundan að skipuleggja hvað gerist eftir 4. maí þegar núverandi takmörkunum linnir. Það yrði verk að vinna „en eins og áður hefur verið sagt þá þarf að aflétta takmörkunum mjög hægt ef við eigum ekki að fá faraldurinn í bakið eins og virðist vera að gerast sums staðar erlendis.“ Hann benti á að á sumum stöðum í heiminum virtist vera að blossa upp sýkingar aftur.
Metdagur í sýnatökum
Fram kom í fréttum fyrr í dag að staðfest smit af kórónuveirunni væru orðin 1.562 hér á landi. Í gær voru þau 1.486 og hefur þeim því fjölgað um 76 á einum sólarhring. Í dag eru 5.262 manns í sóttkví og hefur þeim fækkað frá því í gær er fjöldinn var 5.511. Alls hafa 12.467 manns lokið sóttkví.
Í dag eru 1.096 einstaklingar með virk COVID-19 smit en í gær voru þeir 1.054. Alls hafa 460 náð bata.
Tæplega sextíu ný smit greindust í þeim 867 sýnum sem tekin voru á sýkla- og veirufræðideild Landspítala í gær. Af 1.619 sýnum sem tekin voru hjá Íslenskri erfðagreiningu fundust fimmtán ný smit. Alls hafa 27.880 sýni verið tekin hér á landi frá upphafi faraldursins.