Stjórnendur Icelandair Group vinna nú að því að finna leiðir til að styrkja fjárhag félagsins með því að styrkja hann til lengri tíma. Félagið hefur ráðið Kviku banka, Íslandsbanka og Landsbankann sem ráðgjafa til að hefja skoðun á mögulegum leiðum til að ná því markmiði. Þá munu stjórnendur Icelandair einnig vinna náið með íslenskum stjórnvöldum í því ferli.
Frá þessu er greint í tilkynningu sem send var til Kauphallar Íslands í morgun.
Þar segir að að sá heimsfaraldur sem nú geisar, og þær ráðstafanir sem stjórnvöld hafa gripið til um allan heim til að sporna við útbreiðslu COVID-19 veirunnar, hafa haft veruleg áhrif á flug og ferðalög. „Á síðustu dögum og vikum hefur áhersla verið lögð á það hjá Icelandair að halda uppi lágmarks flugsamgöngum til og frá landinu, bæði fyrir farþega og vöruflutninga þrátt fyrir að flugáætlun félagsins hafi dregist verulega saman á undanförnum vikum. Flugáætlun félagsins nemur nú minna en 10% af þeirri áætlun sem gefin hafði verið út fyrir þetta tímabil ársins. Enn ríkir mikil óvissa um hvenær ferðatakmörkunum verði aflétt og eftirspurn eftir flugi og ferðalögum muni aukast á ný og gera stjórnendur Icelandair Group ráð fyrir því að flugáætlun félagsins muni dragast saman um að minnsta kosti 25% yfir sumartímann.“
Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group, segir að Icelandair viti að á einhverjum tímapunkti mun flug komast aftur í eðlilegt horf og því vilji félagið vera vel í stakk búin til að sækja fram og nýta þau tækifæri sem þá verða fyrir hendi. „Til að ná þeirri stöðu er nauðsynlegt að gera viðeigandi breytingar á kostnaðaruppbyggingu félagsins, styrkja fjárhagsstöðu þess og leita allra leiða til að styrkja samkeppnishæfi þess til frambúðar.“
Icelandair sagði upp 240 starfsmönnum 23. mars síðastliðinn og tilkynnti að 92 prósent eftirstandandi starfsmanna myndu fara í skert starfshlutfall tímabundið. Þessi hópur fellur undir úrræði ríkisstjórnarinnar um mótframlag eftir því sem við á og er því nú á hlutabótum.
Uppsagnirnar náðu til flestra hópa innan félagsins en heildarfjöldi stöðugilda hjá Icelandair Group var að meðaltali 4.715 á árinu 2019. Þeir starfsmenn sem eru áfram í fullu starfi lækkuðu um 20 prósent í launum. Framkvæmdastjórar lækkuðu um 25 prósent og laun forstjóra og stjórnar lækkuðu um 30 prósent.