Á aukafundi peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands, sem fór fram daganna 22. og 23. mars, kom fram að líklegt sé talið að samdráttur í íslensku efnahagslífi verði meiri en þær sviðsmyndir sem Seðlabankinn hefur kynnt opinberlega gefa til kynna. Þetta kemur fram í fundargerð hennar sem birt var í gær, tveimur vikum eftir að fundurinn fór fram.
Sviðsmyndir Seðlabankans voru svo kynntar opinberlega 25. mars, eða tveimur dögum eftir að fundi peningastefnunefndar lauk. Samkvæmt þeim var reiknað með 2,4 til 4,8 prósent samdrætti í landsframleiðslu á árinu 2020.
Mildari sviðsmyndin gerði ráð fyrir 37 prósent fækkun ferðamanna á árinu 2020 sem myndi leiða til 14 prósent samdráttar í heildarútflutningi í ár. Dekkri sviðsmyndin gerði ráð fyrir 55 prósent fækkun ferðamanna sem myndi leiða að sér 21 prósent samdrátt í útflutningi.
Sviðsmyndirnar gerðu ráð fyrir miklum breytingum á atvinnuleysi og að það muni að meðaltali verða á bilinu 5,7 til 7,0 prósent árið 2020. Þá var búið að taka tillit til þess að þúsundir launamanna í einkafyrirtækjum myndu fara á hlutabætur úr Atvinnutryggingaleysissjóði.
Í fundargerð peningastefnunefndar kemur fram að sviðsmyndirnar tvær hafi verið kynntar fyrir nefndarmönnum. Fram hefði komið að óvissa um stöðu mála væri veruleg og erfitt væri spá fyrir um líklegustu þróun efnahagsmála. Þó væri ljóst að horfur væru á samdrætti á þessu ári og miðað við þessar tvær sviðsmyndir gæti orðið á bilinu 2,4 til 4,8 prósent. „Fram kom að vinna við þessar sviðsmyndir héldi áfram og talið var líklegt að sú vinna leiddi í ljós að samdrátturinn yrði meiri en þær sviðsmyndir sem voru kynntar gæfu til kynna. Nefndin horfði einnig til þess að verðbólguhorfur á árinu breyttust tiltölulega lítið þrátt fyrir mikið umrót í efnahagsmálum.“