Mynd: Bára Huld Beck

Margþættir efnahagsskellir framundan og samdráttur allt að 4,8 prósent í ár

Sviðsmyndir Seðlabanka Íslands gera ráð fyrir að mikill samdráttur verði í íslensku efnahagskerfi í ár. Atvinnuleysi mun aukast verulega, einkaneysla dragast saman og fækkun ferðamanna gæti orðið allt að 55 prósent í ár. Verðbólga mun hins vegar dragast saman, samkvæmt sviðsmyndunum.

Seðla­bank­inn reiknar með, í sviðs­myndum sín­um, að 2,4 til 4,8 sam­dráttur verði á lands­fram­leiðslu í ár. Fyrri spá bank­ans, sem birt var í febr­ú­ar, gerði ráð fyrir 0,8 pró­sent hag­vexti. Því gæti breyt­ingin frá síð­ustu spá, verði dekkri sviðs­mynd Seðla­bank­ans að veru­leika, verið 5,6 pró­sentu­stig. 

Þetta kom fram í máli Þór­ar­ins G. Pét­urs­son­ar, aðal­hag­fræð­ings Seðla­banka Íslands, á kynn­ing­ar­fundi á sviðs­myndum bank­ans vegna áhrifa af útbreiðslu veirunnar sem veldur COVID-19 sjúk­dómn­um. „Það er óhætt að segja að staða og horfur í efna­hags­málum hafi breyst hratt á undra­skömmum tíma,“ sagði Þór­ar­inn áður en hann hóf kynn­ingu sína. 

Sviðs­mynd­irnar sem kynntar voru mið­uðu ann­ars vegar við mild­ari áhrif og hins vegar við dekkri áhrif. Þær inni­halda grein­ingu á væntri þróun útflutn­ings álaf­urða, hver áhrifin verða á útflutn­ing sjáv­ar­af­urða, áhrif á einka­neyslu og vinnu­markað og tíma­bundin áhrif ein­angr­unar og sam­komu­banns. En helstu áhrifin sem metin eru koma til vegna skells í ferða­þjón­ust­u. 

Allt að 55 pró­sent fækkun ferða­manna

Mild­ari sviðs­myndin gerði ráð fyrir 37 pró­sent fækkun ferða­manna á árinu 2020 sem myndi leiða til 14 pró­sent sam­dráttar í heild­ar­út­flutn­ingi í ár. Dekkri sviðs­myndin gerði ráð fyrir 55 pró­sent fækkun ferða­manna sem myndi leiða að sér 21 pró­sent sam­drátt í útflutn­ing­i. 

Auglýsing

Sviðs­mynd­irnar gera ráð fyrir miklum breyt­ingum á atvinnu­leysi og að það muni að með­al­tali verða á bil­inu 5,7 til 7,0 pró­sent árið 2020. Þá er búið að taka til­lit til þess að þús­undir launa­manna í einka­fyr­ir­tækjum munu fara á hluta­bætur úr Atvinnu­trygg­inga­leys­is­sjóði. Það mun líka hægja veru­lega á fjölgun fólks á vinnu­aldri, sér­stak­lega vegna þess að inn­flutn­ingur á vinnu­afli mun drag­ast veru­lega saman eða jafn­vel stöðvast. Sótt­kví, sjálfsein­angrun og sam­komu­bann mun einnig hafa áhrif á stöð­una.

Verð­bólga mun, að mati Seðla­bank­ans, drag­ast sam­an. Spáin í febr­úar gerði ráð fyrir með­al­verð­bólgu á árinu upp á 1,9 pró­sent. Sviðs­mynd­irnar gera hins vegar ráð fyrir því að hún verði lægri, eða 1,4 til 1,5 pró­sent. Þar ræður miklu að lægra verð á hrá­vöru alþjóð­lega og sá mikli slaki sem er að skap­ast á Íslandi toga á móti hefð­bundnum verð­bólgu­hvötum eins og geng­is­falli krón­unn­ar. 

Auð­velda rík­is­sjóði að fjár­magna útgjöld

Ásgeir Jóns­son seðla­banka­stjóri ræddi á fund­inum um magn­bundna íhlutun Seðla­bank­ans, sem var nýverið kynnt og felur í sér upp­kaup bank­ans á rík­is­skulda­bréf­um. 

Hann sagði að aðgerð­inni sé nú beitt í fyrsta sinn á Íslandi en hafi verið í notkun í um tíu ár alþjóð­lega. Ákvörðun um að ráð­ast í þetta hafi verið tekin á sunnu­dag og enn eigi eftir að útfæra mörg atriði í fram­kvæmd­inni. Heim­ildin til að kaupa er  150 millj­arðar króna, sem er um fimm pró­sent af lands­fram­leiðslu. 

Ásgeir sagði að pen­inga­stefnu­nefnd bank­ans tók ákvörð­un­ina án sam­ráðs við fjár­mála- og efna­hags­ráðu­neytið en útfærslan sé nú útfærð í sam­ráði við ráðu­neytið og rík­is­stjórn­ina.

Auglýsing

Ástæðan fyrir því að ráð­ast í magn­bundna íhlutun núna sé að reyna að hafa áhrif á lang­tíma­kröfur á bréf. Í ljósi þess að rík­is­sjóður muni þurfa aukið fjár­magn til að standa skil á útgjöldum vegna COVID-19-far­ald­urs­ins þá sé fyr­ir­sjá­an­legt að það verði meiri útgáfa á skulda­bréf­um. Aðgerðin muni ein­fald­lega auð­velda rík­is­sjóði að fjár­magna þau útgjöld sem liggi nú fyr­ir. „Þetta er þá að ein­hverju leyti aðgerð til að koma í veg fyrir að lang­tímakrafan muni hækk­a.“ 

Seðla­banka­stjóri sagði að ákveðnar hættur gætu fylgt þessu. Pen­inga­magn í umferð gæti aukist, þetta gæti valdið verð­bólgu eða lækkað gengi krón­unn­ar. Ásgeir telur hins vegar ekki að við yfir­stand­andi aðstæður sé sú hætta fyrir hendi.

Skiptir Kjarninn þig máli?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við erum til staðar fyrir lesendur og fjöllum um það sem skiptir máli.

Ef Kjarninn skiptir þig máli þá máttu endilega vera með okkur í liði.

Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar