Mynd: Bára Huld Beck

Margþættir efnahagsskellir framundan og samdráttur allt að 4,8 prósent í ár

Sviðsmyndir Seðlabanka Íslands gera ráð fyrir að mikill samdráttur verði í íslensku efnahagskerfi í ár. Atvinnuleysi mun aukast verulega, einkaneysla dragast saman og fækkun ferðamanna gæti orðið allt að 55 prósent í ár. Verðbólga mun hins vegar dragast saman, samkvæmt sviðsmyndunum.

Seðlabankinn reiknar með, í sviðsmyndum sínum, að 2,4 til 4,8 samdráttur verði á landsframleiðslu í ár. Fyrri spá bankans, sem birt var í febrúar, gerði ráð fyrir 0,8 prósent hagvexti. Því gæti breytingin frá síðustu spá, verði dekkri sviðsmynd Seðlabankans að veruleika, verið 5,6 prósentustig. 

Þetta kom fram í máli Þórarins G. Péturssonar, aðalhagfræðings Seðlabanka Íslands, á kynningarfundi á sviðsmyndum bankans vegna áhrifa af útbreiðslu veirunnar sem veldur COVID-19 sjúkdómnum. „Það er óhætt að segja að staða og horfur í efnahagsmálum hafi breyst hratt á undraskömmum tíma,“ sagði Þórarinn áður en hann hóf kynningu sína. 

Sviðsmyndirnar sem kynntar voru miðuðu annars vegar við mildari áhrif og hins vegar við dekkri áhrif. Þær innihalda greiningu á væntri þróun útflutnings álafurða, hver áhrifin verða á útflutning sjávarafurða, áhrif á einkaneyslu og vinnumarkað og tímabundin áhrif einangrunar og samkomubanns. En helstu áhrifin sem metin eru koma til vegna skells í ferðaþjónustu. 

Allt að 55 prósent fækkun ferðamanna

Mildari sviðsmyndin gerði ráð fyrir 37 prósent fækkun ferðamanna á árinu 2020 sem myndi leiða til 14 prósent samdráttar í heildarútflutningi í ár. Dekkri sviðsmyndin gerði ráð fyrir 55 prósent fækkun ferðamanna sem myndi leiða að sér 21 prósent samdrátt í útflutningi. 

Auglýsing

Sviðsmyndirnar gera ráð fyrir miklum breytingum á atvinnuleysi og að það muni að meðaltali verða á bilinu 5,7 til 7,0 prósent árið 2020. Þá er búið að taka tillit til þess að þúsundir launamanna í einkafyrirtækjum munu fara á hlutabætur úr Atvinnutryggingaleysissjóði. Það mun líka hægja verulega á fjölgun fólks á vinnualdri, sérstaklega vegna þess að innflutningur á vinnuafli mun dragast verulega saman eða jafnvel stöðvast. Sóttkví, sjálfseinangrun og samkomubann mun einnig hafa áhrif á stöðuna.

Verðbólga mun, að mati Seðlabankans, dragast saman. Spáin í febrúar gerði ráð fyrir meðalverðbólgu á árinu upp á 1,9 prósent. Sviðsmyndirnar gera hins vegar ráð fyrir því að hún verði lægri, eða 1,4 til 1,5 prósent. Þar ræður miklu að lægra verð á hrávöru alþjóðlega og sá mikli slaki sem er að skapast á Íslandi toga á móti hefðbundnum verðbólguhvötum eins og gengisfalli krónunnar. 

Auðvelda ríkissjóði að fjármagna útgjöld

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri ræddi á fundinum um magnbundna íhlutun Seðlabankans, sem var nýverið kynnt og felur í sér uppkaup bankans á ríkisskuldabréfum. 

Hann sagði að aðgerðinni sé nú beitt í fyrsta sinn á Íslandi en hafi verið í notkun í um tíu ár alþjóðlega. Ákvörðun um að ráðast í þetta hafi verið tekin á sunnudag og enn eigi eftir að útfæra mörg atriði í framkvæmdinni. Heimildin til að kaupa er  150 milljarðar króna, sem er um fimm prósent af landsframleiðslu. 

Ásgeir sagði að peningastefnunefnd bankans tók ákvörðunina án samráðs við fjármála- og efnahagsráðuneytið en útfærslan sé nú útfærð í samráði við ráðuneytið og ríkisstjórnina.

Auglýsing

Ástæðan fyrir því að ráðast í magnbundna íhlutun núna sé að reyna að hafa áhrif á langtímakröfur á bréf. Í ljósi þess að ríkissjóður muni þurfa aukið fjármagn til að standa skil á útgjöldum vegna COVID-19-faraldursins þá sé fyrirsjáanlegt að það verði meiri útgáfa á skuldabréfum. Aðgerðin muni einfaldlega auðvelda ríkissjóði að fjármagna þau útgjöld sem liggi nú fyrir. „Þetta er þá að einhverju leyti aðgerð til að koma í veg fyrir að langtímakrafan muni hækka.“ 

Seðlabankastjóri sagði að ákveðnar hættur gætu fylgt þessu. Peningamagn í umferð gæti aukist, þetta gæti valdið verðbólgu eða lækkað gengi krónunnar. Ásgeir telur hins vegar ekki að við yfirstandandi aðstæður sé sú hætta fyrir hendi.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar