Um heim allan, og sérstaklega hér á Vesturlöndum, má sjá fram á gríðarlegt atvinnuleysi nú þegar COVID-19 faraldurinn gengur yfir. Ríki heimsins eru misvel í stakk búin til að takast á við ástandið en mörg hver hafa brugðið á það ráð að dæla háum peningaupphæðum inn í hagkerfið – annað hvort með beinum útgjaldaaukningum eða í formi lánafyrirgreiðslna.
Ein leið íslenskra stjórnvalda í aðgerðapakka þeirra er svokölluð hlutabótaleið sem gengur út á það að auðvelda atvinnurekendum að halda starfsfólki og koma í veg fyrir uppsagnir.
Atvinnurekendur geta því nú lækkað starfshlutfall allt niður í 25 prósent og getur starfsfólkið fengið hlutfallslegar atvinnuleysisbætur á móti. Rúmlega 31 þúsund umsóknir bárust Vinnumálastofnun frá einstaklingum í minnkuðu starfshlutfalli frá því að opnað var fyrir umsóknir í marsmánuði og má því segja að viðbrögðin hafi ekki látið á sér standa varðandi hlutabótaleiðina. Áætlað er að mun fleiri munu nýta sér hana á næstunni.
Ýmsar leiðir hafa verið ræddar og sumum framfylgt – bæði hér á Íslandi sem og erlendis – til þess að tryggja afkomu fólks í þessu alvarlega ástandi. Sumar fela í sér eingreiðslur til fólks, aðrar auknar atvinnuleysisbætur og svo er það umræðan um borgaralaunin.
Skref tekið í áttina að borgaralaunum
Spánn hefur tekið skref í átt að nokkurs konar borgaralaunum, að því er fram kemur á vefmiðli Business Insider. COVID-19 faraldurinn hefur leikið Spánverja grátt en yfir 141.000 manns hafa fengið sjúkdóminn og 14.000 látist af hans völdum þar í landi.
Fjármálaráðherrann á Spáni, Nadia Calviño, sagði í viðtali við fjölmiðla á sunnudaginn var að stjórnvöld ætluðu að kynna greiðslurnar til sögunnar til þess að hjálpa löndum sínum að fóta sig fjárhagslega á ný. Með því að lögleiða grunnframfærslu væri verið að hjálpa fjölskyldum í neyð – en þó með tilliti til aðstæðna þeirra. Þess ber að geta að þessi leið Spánverja myndi ekki falla undir skilgreininguna á borgaralaunum– enda er hún skilyrðum háð sem borgaralaun eru ekki.
Ekki liggur fyrir nákvæm tímasetning hvenær þessi leið verður farin á Spáni en Calviño sagði að stjórnvöld vonuðust til að hún yrði til frambúðar og því ekki einungis bundin við faraldurinn. „Við ætlum að gera þetta eins fljótt og auðið er,“ sagði hún. „Svo þetta geti komið að gagni, ekki einungis í þessu óvenjulega ástandi heldur varanlega.“
Inneignarkort – ekki borgaralaun
Fleiri lönd hafa þó innleitt atvinnuleysisbótakerfi sem sumir kalla borgaralaun. Í frétt RÚV frá því í mars í fyrra kom fram að Ítölum hefði í fyrsta sinn gefist kostur á að sækja um borgaralaun, en þau væru hluti aðgerða ítölsku stjórnarinnar gegn fátækt og hægum hagvexti síðustu ár.
Í fréttinni sagði að borgaralaun hefðu verið eitt af helstu kosningaloforðum Fimmstjörnuhreyfingarinnar sem komst til valda eftir kosningar á Ítalíu í fyrra. Eitt af helstu markmiðum ítölsku stjórnarinnar hefði verið að sporna við fátækt.
Ekki er þó um eiginleg borgaralaun að ræða þar sem þau eru skilyrðum háð. Atvinnulausum gafst þannig kostur á að sækja um þessi laun, að jafnvirði tæplega sjötíu þúsund íslenskra króna, en samkvæmt fréttinni fékk hver og einn inneignarkort þangað til atvinnuleit bæri árangur. Áætlað var að borgaralaunin myndu kosta ítalska ríkið sjö milljarða evra árlega en vonir voru bundnar við að launin ykju bæði neyslu og hagvöxt.
Saknar meiri róttækni
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, vakti máls á borgaralaunum í Silfrinu um síðustu helgi. „Það sem ég sakna mest er meiri róttækni, en hennar var kannski ekki að vænta hjá frekar íhaldssamri stjórn.“
Hún sagðist jafnframt telja að ástand dagsins í dag kallaði á „ákveðna samfélagslega sjálfsskoðun og að við endurskoðum verðmætamat okkar.“ Hún benti á að fólkið sem héldi samfélaginu gangandi í dag væru heilbrigðisstarfsfólk, starfsfólk í velferðarþjónustu, kennarar, sorphirðufólk, fólk í matvælaframleiðslu og fleiri hópar.
„Við sjáum það bara að þeirra verðmæti fyrir samfélagið, þessa grundvallarfólks, það endurspeglast ekki í þeim launaseðlum sem þau fá,“ sagði Þórhildur Sunna, sem nefndi einnig að það hefði verið höfuðáhersla Pírata að reyna að fá stjórnvöld til að sjá mikilvægi þess að enginn félli utan þessara aðgerða og sagðist telja að stjórnvöld gerðu illt verra með því að búa til „ölmusukerfi“ sem væru flókin fyrir notendur.
„Við höfum talað fyrir borgaralaunum,“ sagði Þórhildur Sunna og benti á að sú hugmynd nyti aukinnar hylli þessa dagana, jafnvel úr óvæntum áttum eins og frá leiðarahöfundum breska blaðsins Financial Times.
Opinber þjónusta sem fjárfesting
Vísaði Þórhildur Sunna þar í leiðara blaðsins frá 3. apríl síðastliðnum. Í honum segir meðal annars að leggja þurfi til róttækar umbætur — viðsnúning á ráðandi stefnumörkun fjögurra síðastliðinna áratuga. „Ríkisstjórnir munu þurfa að taka að sér virkara hlutverk í hagkerfinu. Þær þurfa að fara að líta á opinbera þjónustu sem fjárfestingu frekar en sem dragbít og leitast við að draga úr óöryggi á vinnumarkaði.
Endurúthlutun mun komast aftur á dagskrá og forréttindi hinna öldruðu og auðugu verða ekki talin eins sjálfsögð. Stefnumál sem voru talin eintóm sérviska þar til fyrir skömmu, eins og borgaralaun og auðlegðarskattar, munu þurfa að öðlast sinn sess í umræðunni,“ segir í leiðaranum.
Fátækt á Íslandi að miklu leyti afleiðing íslenskrar velferðarstefnu
Þingmenn Pírata lögðu fram þingsályktunartillögu á Alþingi um borgaralaun í samræmi við stefnu flokksins í janúar 2018 en tillagan hafði nokkrum sinnum verið lögð fram en ekki náð fram að ganga.
Þá vildu Píratar að félags- og jafnréttismálaráðherra yrði falið í samstarfi við fjármála- og efnahagsráðherra að skipa starfshóp sem kortlegði leiðir til að tryggja öllum borgurum landsins skilyrðislausa grunnframfærslu með það að markmiði að styrkja efnahagsleg og félagsleg réttindi fólks og stuðla að jöfnum tækifærum.
Í greinargerð með tillögunni kom fram að fátækt á Íslandi væri að miklu leyti afleiðing íslenskrar velferðarstefnu sem byggðist á skilyrtri velferðarforsjá í formi lágmarksaðstoðar og áherslu á góðgerðarstarfsemi og ölmusu fyrir þá verst settu. Íslenska ríkið hefði í gegnum árin sett lög og reglugerðir sem veittu fólki svo lágar bætur að upphæðirnar væru innan fátæktarmarka.
„Skilyrðislaus grunnframfærsla er hugmynd að kerfi sem ætlað er að leysa almannatryggingakerfið af hólmi eða í það minnsta einfalda það verulega, gera það réttlátara og sömuleiðis uppræta ákveðinn innbyggðan ójöfnuð í samfélaginu. Þetta er framkvæmt með því að greiða hverjum og einum borgara fjárhæð frá ríkinu óháð atvinnu eða öðrum tekjum,“ sagði í greinargerðinni með þingsályktunartillögunni. Tillagan náði ekki fram að ganga í þetta skiptið.
Hvað ætla stjórnvöld í Bandaríkjunum að gera?
Donald Trump Bandaríkjaforseti undirritaði lög í lok mars síðastliðins sem innleiða stærsta aðgerðapakka í nútímasögu landsins. Ástandið vegna kórónuveirunnar fer versnandi í Bandaríkjunum en tæplega 13.000 manns hafa látist úr COVID-19 og spá vísindamenn fyrir um andlát á bilinu 100 til 240 þúsunda þar í landi.
Aðgerðapakkinn hljóðar upp á tvær billjónir Bandaríkjadala, eða um 280 þúsund milljarða íslenskra króna, og er honum ætlað að bregðast við efnahagsáfallinu sem faraldur kórónuveirunnar hefur og mun hafa í för með sér. Hann felur meðal annars í sér atvinnuleysisbætur fyrir einstaklinga, fjárveitingar til ríkja og risastóran björgunarsjóð fyrir þau fyrirtæki sem faraldurinn kemur illa við.
Í pakkanum er einnig að finna eingreiðslu til Bandaríkjamanna sem hljóðar upp á allt að 1.200 dollara, sem jafngildir um 172 þúsund íslenskum krónum á mann. Þetta er þó skilyrðum háð og fer það eftir tekjum fólks hversu háa upphæð það fær. Augljóslega eru þetta ekki borgaralaun enda um eingreiðslu að ræða.