Fylgi Sjálfstæðisflokksins mælist 23,5 prósent í nýjustu könnun MMR. Það hafði rokið upp í síðustu könnun á undan, sem birt var 23. mars, og mældist þá 27,4 prósent, sem var mesta fylgi sem flokkurinn hafði mælst með frá því um sumarið 2017, eða fyrir síðustu kosningar.
Þeir flokkar sem bæta mest við sig nú eru Vinstri græn, flokkur Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra, sem mælist með 12,3 prósent fylgi og bætir við sig 2,5 prósentustigum, og Píratar, sem njóta stuðnings 12,2 prósent kjósenda sem er tveimur prósentustigum meira en þeir mældust með í mars.
Stuðningur við ríkisstjórnina jókst milli mælinga um þrjú prósentustig og er nú 56,2 prósent. Alls hefur hann aukist um 17,4 prósentustig frá því í lok febrúar, þegar sú krísa sem nú stendur yfir vegna útbreiðslu veirunnar sem veldur COVID-19 sjúkdómnum var ekki hafin að fullu hérlendis.
Viðreisn stendur nánast í stað milli kannana og mælist með 9,6 prósent fylgi og fylgi Framsóknarflokksins tekur aðeins við sér en nær samt einungis 8,8 prósentum. Það er töluvert frá kjörfylgi flokksins sem fékk 10,7 prósent í kosningunum 2017.
Flokkur fólksins er eina stjórnmálaaflið sem á fulltrúa á Alþingi í dag sem mælist ekki inni sem er. Fylgi flokksins er nú 3,4 prósent samkvæmt könnun MMR. Það er sama fylgi og Sósíalistaflokkur Íslands mælist með, en hann tapar 1,3 prósentustigi frá síðustu könnun.
Könnunin var framkvæmd 3. - 7. apríl 2020 og var heildarfjöldi svarenda 987 einstaklingar, 18 ára og eldri.
Allir ríkisstjórnarflokkarnir eru þó enn að mælast undir kjörfylgi. Samanlagt fengu þeir 52,8 prósent atkvæða í kosningunum í október 2017 en mælast nú með 44,6 prósent fylgi.
Samfylkingin, Píratar og Viðreisn mælast hins vegar öll með meira fylgi en þau fengu í síðustu kosningum. Samanlagt nutu þessir þrír flokkar þá stuðnings 28 prósent kjósenda en nú segjast 35,6 prósent þeirra styðja einhvern flokkanna þriggja.
Miðflokkurinn er aðeins undir kjörfylgi – fékk 10,9 prósent árið 2017 og mælist nú með 10,7 prósent – en stuðningur við Flokk fólksins hefur helmingast.
Eins og staðan er í dag, samkvæmt könnun MMR, eru allar líkur á því að 8,9 prósent kjósenda myndu kjósa flokka sem ólíklegt er að næðu inn manni á þing.