„Ég held að við getum sagt að við séum búin að ná toppnum eins og staðan er núna,“ sagði Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir á daglegum upplýsingafundi almannavarna í dag.
Fjöldi þeirra sem er að batna er nú meiri en nýgreindra, sem þýðir að sögn Þórólfs að líklega er R-talan svokallaða, útbreiðslutalan sem segir til um hve marga hver og einn smitaður einstaklingur er að smita að meðaltali, komin undir 1.
„Faraldurinn er eins og staðan er núna á niðurleið, held ég að við getum sagt, en það er alveg ljóst að það má ekkert mikið út af bregða og þetta getur breyst með nýjum hópsýkingum ef menn gá ekki af sér,“ sagði Þórólfur.
Hann sagði þó að hægt væri gleðjast yfir þessu og einnig því að það væri greinilega mjög lítið um samfélagslegt smit, en einungis um 0,07 prósent þeirra sem Íslensk erfðagreining skimaði í gær reyndist vera með veiruna, eða eitt smit af alls 1.284 sýnum sem tekin voru úr samfélaginu.
Þórólfur sagði að faraldurinn væri nokkurnveginn að fylgja bestu forspá úr spálíkani vísindamanna við Háskóla Íslands, Landspítala og frá landlæknisembættinu, nema hvað fjölda innlagna varðaði. Sóttvarnalæknir sagði að líkanið hefði verið mjög hjálplegt og stutt heilbrigðisyfirvöld vel í því sem verið væri að gera.
Þá sagði Þórólfur að greiningartæki á sýkla- og veirufræðideild Landspítala, sem hefur verið bilað, væri komið í lag. Því væri hægt að greina sýni þar á auknum afköstum, sem væri mjög ánægjulegt.
Alma Möller landlæknir sagði á fundinum að þó ánægjulegt væri að við værum að líkindum búin að ná toppi í nýsmitum, ætti mesta álagið, toppurinn, eftir að koma í ljós í heilbrigðiskerfinu en búist er við því að álagið verði mest um mánuðinn miðjan.