Laun alþingismanna, ráðherra, ráðuneytisstjóra og annarra æðstu embættismanna hækkuðu um 6,3 prósent frá 1. janúar síðastliðnum. Þetta kemur fram í svari fjármála- og efnahagsráðuneytisins við fyrirspurn Kjarnans um málið.
Laun þingmanna munu við þetta hækka um tæpar 70 þúsund krónur á mánuði og verða 1.170.569 krónur á mánuð. Laun forsætisráðherra hækka um 127 þúsund krónur á mánuði og verða 2.149.200 krónur á mánuði og laun ráðherra munu hækka í 1.941.328 krónur á mánuði, eða um 115.055 krónur á mánuði.
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, sendi erindi til fjármála- og efnahagsráðuneytisins fyrir skemmstu þar sem hann óskaði eftir því að laun hans myndu ekki hækka í launum í sumar. Laun hans verða því einnig fryst til 2021, en þau eru 2.985.00 krónur á mánuði.
Tugprósenta launahækkanir
Kjararáð ákvað í október 2016 að hækka laun forseta Íslands, þingfararkaup alþingismanna og laun ráðherra. Samkvæmt úrskurði kjararáðs urðu laun forseta Íslands 2.985.000 krónur á mánuði, þingfararkaup alþingismanna 1.101.194 krónur á mánuði, laun forsætisráðherra að meðtöldu þingfararkaupi varð 2.021.825 krónur á mánuði og laun annarra ráðherra að meðtöldu þingfararkaupi urðu 1.826.273 krónur á mánuði. Laun þingmanna hækkuðu hlutfallslega mest við ákvörðun Kjararáðs, eða um 44,3 prósent.
Fyrsta hækkunin átti að taka gildi í fyrrasumar og taka við af hækkun vísitölunnar árið 2018. Í tengslum við gerð Lífskjarasamninganna var ákveðið að fresta þeirri hækkun til 1. janúar 2020.
Frestuðu síðari hækkun en ekki þeirri fyrri
Fyrir skemmst var greint frá því að Alþingi hefði samþykkt að lögákveðin hækkun sem var áætluð 1. júlí 2020 yrði frestað til 1. janúar 2021. Þetta var gert vegna yfirstandandi aðstæðna sem rekja má til útbreiðslu veirunnar sem veldur COVID-19 sjúkdómnum og þeirra miklu efnahagslegu afleiðinga sem hún hefur í för með sér.
Hún verður í samræmi við hækkun á launavísitölu Hagstofunnar vegna ársins 2019. Sú frestun hefur þó, samkvæmt svari ráðuneytisins til Kjarnans, engin áhrif á gildistöku launahækkunarinnar sem frestað var í fyrra.
Atvinnuástand án fordæma
Sem viðbragð við yfirstandandi efnahagsvanda var samþykkt á Alþingi frumvarp sem veitir einstaklingum tímabundna heimild til að semja um lækkað starfshlutfall við atvinnurekanda sinn, og nýti sér það að fá hlutabætur úr Atvinnuleysistryggingasjóði. Samkvæmt úrræðinu, sem gildir sem stendur til 1. júní, getur starfsfólk sem er með allt að 700 þúsund krónur í mánaðarlaun fengið allt að 90 prósent launa sinna á tímabilinu annars vegar frá vinnuveitanda og hins vegar í formi atvinnuleysisbóta. Þeir sem eru með undir 400 þúsund krónur á mánuði fá 100 prósent launa sinna.
Rúmlega 31 þúsund manns hafa sótt um úrræðið og stór hluti þess hóps nýtur nú skertra launakjara.