Þorsteinn Víglundsson hefur verið ráðinn forstjóri eignarhaldsfélagsins Hornsteins ehf. og hefur störf þar 16. apríl. Þetta kemur fram í tilkynningu frá fyrirtækinu, en Þorsteinn tilkynnti í morgun að hann hefði sagt af sér þingmennsku frá 14. apríl.
Hornsteinn á og rekur fyrirtækin BM Vallá, Björgun og Sementsverksmiðjuna, en dótturfélögin starfa við öflun hráefna, framleiðslu, sölu og þjónustu á byggingarmarkaði og mannvirkjagerð.
Þorsteinn þekkir vel til starfseminnar, en hann var forstjóri BM Vallá á árunum 2002 til 2010. Hjá fyrirtækjunum starfa um 200 manns á starfsstöðvum víða um land, en skrifstofa Hornsteins er á Bíldshöfða í Reykjavík.
Í tilkynningu sem Þorsteinn sendi á fjölmiðla í morgun segir að hann hafi tilkynnt Steingrími J. Sigfússyni, forseta Alþingis, um ákvörðun sína síðdegis í gær.
„Ég hef að vandlega íhuguðu máli samþykkt að taka að mér spennandi verkefni á vettvangi atvinnulífsins og mun hefja störf síðar í þessum mánuði. Þá hef ég á sama tíma tilkynnt stjórn Viðreisnar um afsögn mína sem varaformaður flokksins,“ sagði Þorsteinn.
Sæti Þorsteins á þingi tekur fyrsti varaþingmaður Viðreisnar í Reykjavíkurkjördæmi norður, Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir lögfræðingur. Hún var aðstoðarmaður Þorsteins þegar hann gegndi embætti félags- og jafnréttismálaráðherra.
Þorbjörg segir í tilkynningu sem send var til fjölmiðla í morgun að þingflokkur Viðreisnar sé skemmtilegur og sterkur hópur, sem henni finnist frábært að verða núna hluti af.
„Auðvitað er síðan sérstakt að taka sæti á Alþingi með þau verkefni sem koma í kjölfar þess að faraldur er að breyta heiminum. Mér hefur fundist samstaða og samkennd einkenna fyrstu skref. Og ætla að leggja mitt af mörkum með þessi stef að leiðarljósi og frjálslyndar áherslur Viðreisnar,“ var haft eftir Þorbjörgu.