Ríflega þrír af hverjum fjórum af þeim rúmlega 30 manns mann sem sótt hafa um hlutabætur vegna minnkaðs starfshlutfalls eru íslenskir ríkisborgarar. Tæplega fjórðungur þeirra eru erlendir ríkisborgarar og 14 prósent allra sem sótt hafa um hlutabæturnar eru Pólverjar. Þetta kemur fram í tölum sem Alþýðusamband Íslands birti í dag.
Hlutföllin endurspegla að stóru leiti samsetningu íslenska vinnumarkaðarins þar sem 20 prósent allra sem störfuðu á honum í fyrra voru útlendingar en um 80 prósent íslenskir ríkisborgarar. Í samantekt ASÍ um skiptingu hlutabóta segir að umsóknir um hlutabætur endurspegli samsetningu vinnumarkaðarins betur en umsóknir um atvinnuleysisbætur síðasta árið, þar sem hlutfall Íslendinga meðal umsækjenda hefur verið 63 prósent.
46 þúsund manns á hlutabótum eða atvinnuleysisskrá
Alls hafa 30.097 manns sótt um hlutabætur. Til viðbótar hafa um 16 þúsund manns skráð sig á almennu atvinnuleysisskránna, samkvæmt tölum sem birtar voru í Morgunblaðinu í morgun. Það þýðir að um 46 þúsund manns eru að þiggja atvinnuleysisbætur að hluta eða öllu leyti um þessar mundir. Á síðast ári voru 199.029 manns starfandi á Íslandi og því eru um 23 prósent íbúa landsins á einhvers konar atvinnuleysisbótum.
Fjöldi umsækjenda er þó hlutfallslega hærri á Suðurnesjum og á höfuðborgarsvæðinu en á landsbyggðinni. Þannig hafa 11 prósent umsókna borist frá íbúum Suðurnesja, þar sem átta prósent starfandi landsmanna bjuggu á síðasta ári og 67 prósent umsókna af höfuðborgarsvæðinu, þar sem 64 prósent starfandi landsmanna bjuggu.
Í tölum ASÍ kemur fram að kynjaskipti umsækjenda sé nokkuð jöfn og nánast í takti við þá skiptingu sem er á milli kynjanna á vinnumarkaði. Sé litið til aldursskiptingar, eru umsóknir hlutfallslega flestar í aldurshópnum 30-39 ára. Alls eru 26 prósent umsækjenda á þeim aldri, samanborið við 21,6 prósent af starfandi fólki. Lægst er hlutfallið meðal fólks á aldrinum 60-69 ára, en níu prósent umsækjenda eru á þeim aldri samanborið við 11,7 prósent af starfandi fólki.