Áttatíu ár eru liðin frá því að Íslendingar tóku meðferð utanríkismála í eigin hendur og utanríkismáladeild Stjórnarráðsins var gerð að utanríkisráðuneyti. Markar þessi tímapunktur upphaf íslensku utanríkisþjónustunnar.
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, sendir utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra og starfsliði utanríkisþjónustunnar heillaóskir og þakkir fyrir farsæl og giftudrúg störf við tilefnið.
„Hart var í heimi fyrir réttum áttatíu árum, styrjöld í Evrópu og Danmörk hernumin þannig að okkur Íslendingum reyndist brýn nauðsyn að taka utanríkismál okkar tafarlaust í eigin hendur. Vissulega höfðum við átt okkar sendimenn ytra fyrir þessi kaflaskil, gert okkar alþjóðasamninga og gætt okkar hagsmuna. En til þessa dags, 10. apríl 1940, má með réttu rekja upphaf íslenskrar utanríkisþjónustu,“ skrifar hann.
Samkennd og samstaða mun reynast vel í baráttunni við veiruna
Æ síðan hafi fulltrúar hennar, ráðherrar, sendiherrar og annað starfsfólk, sinnt þörfum Íslands á alþjóðavettvangi. Og þar hafi viðfangsefnin verið fjölþætt og af ólíkum toga. Megi þar nefna viðskipti og varnir landsins, landhelgismál og þróunarsamvinnu. Eins mikilvæg hafi hún ætíð verið, þjónusta við Íslendinga utan landsteinanna, ekki síst þegar fólk hafi ratað í vandræði og þurft aðstoð við lausn sinna mála.
„Dimmt var yfir þjóðlífinu 10. apríl 1940. Nú eru einnig blikur á lofti. Blessunarlega er vandi okkar ekki eins ærinn og við blasti þá, og átti eftir að versna enn frekar. Samkennd og samstaða mun reynast vel í baráttu okkar við veiruna skæðu sem nú herjar á landsmenn og aðra. Aðdáunarvert hefur verið að fylgjast með borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins. Starfslið hér heima og ytra hefur bjargað mörgum landanum úr bráðum vandræðum eins og ótal dæmi sanna. Órækara dæmi um gildi utanríkisþjónustunnar er vandfundið,“ stendur í bréfi forsetans.
Hægt er að lesa kveðju Guðna í heild sinni hér.