Staðfest smit af kórónuveirunni eru orðin 1.701 hér á landi. Í gær voru þau 1.689 og hefur þeim því aðeins fjölgað um tólf síðasta sólarhringinn. Ekki hafa færri smit greinst á einum degi hérlendis síðan 9. mars, þegar níu smit greindust.
Núna eru 2.861 manns í sóttkví en í gær var fjöldinn 3.080. Alls hafa 15.751 lokið sóttkví.
Í dag eru 804 einstaklingar með virk COVID-19 smit en í gær var fjöldinn 839. Alls hafa 889 manns náð bata eftir að hafa smitast af veirunni. Búið er að taka alls 35.253 sýni hér á landi.
Af þeim tólf smitum sem greindust í gær voru tíu greind á sýkla- og veirufræðideild Landspítala, en þar voru alls 219 sýni tekin til skoðunar. Tveir af þeim 399 einstaklingum sem fóru í sýnatöku hjá Íslenskri erfðagreiningu í gær reyndust smitaðir.
Á sjúkrahúsi liggja 37 sjúklingar vegna COVID-19 sjúkdómsins, þar af tíu á gjörgæslu, samkvæmt því sem fram kemur á vefnum covid.is. Af þeim sem greinst hafa með COVID-19 á Íslandi eru átta látin.
Virk smit hafa ekki náð þeim fjölda sem forspá gerði ráð fyrir
Í nýjustu forspá vísindamanna við Háskóla Íslands, Landspítala og hjá landlæknisembættinu, sem byggir á gögnum til og með 5. apríl, var gert ráð fyrir því að fjöldi einstaklinga með virkan sjúkdóm næði hámarki í fyrstu viku apríl og yrði sennilega um 1.400 manns, en gæti viku seinna náð 1.800 manns samkvæmt svartsýnni spá.
Núna, 12. apríl, hefur virkum smitum farið fækkandi sex daga í röð frá því að fjöldi þeirra náði hámarki þann 5. apríl. Þá voru 1.096 manns með virkan sjúkdóm.