„Öll þurfum við nú að þola mæðusamar stundir, þurfum að þola dæmalausa daga,“ sagði Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands í sérstöku páskadagsávarpi sem flutt var á RÚV í kvöld. Ávarpið hefur verið birt á vef forsetaembættisins á íslensku, ensku og pólsku.
Forsetinn færði þeim sem hafa misst aðstandendur vegna kórónuveirunnar hjartans samúðarkveðjur og bað landsmenn um að hugsa hlýtt til allra þeirra sem hafa veikst af veirunni sem og þeirra fjölmörgu sem hafa setið í einangrun eða sóttkví. Þá flutti hann fólki í áhættuhópum vegna veirusmits, baráttu- og stuðningskveðjur.
Guðni beindi orðum sínum sérstaklega að eldri borgurum landsins. „Ykkar kynslóð byggði upp það samfélag velferðar á Íslandi sem við eigum öll að geta notið saman. Varnir við vágestinum þýða að þið hafið lítt eða ekki notið samvista við ykkar nánustu að undanförnu, en þið takið þessu hlutskipti af því æðruleysi sem löng lífsreynsla kennir. Öll megum við mikið læra af þeim sterka hug,“ sagði Guðni.
Hrósaði almenningi fyrir viðbrögð sín
Forsetinn hrósaði viðbrögðum almennings við veirufaraldrinum og hvatti fólk til þess að halda áfram á sömu braut. Hann sagði að stundum væri sagt að Íslendingar væru þrasgjarnir og síst af öllu húsbóndahollir.
„Við fyrstu sýn mætti ætla að slík þjóðareinkenni kæmu okkur í koll þegar farsóttin skall á landinu af fullum þunga. En öðru nær. Upp til hópa hefur fólk hlýtt tilmælum og leiðbeiningum og hlýt ég að brýna landa mína að halda því striki. Á sama tíma höfum við samt skipst á skoðunum um það hvernig bregðast beri við. Ólík sjónarmið hafa heldur betur heyrst. Á Alþingi hafa stjórnarandstæðingar veitt aðhald en sýnt sanngirni. Ríkisstjórn landsins hefur axlað ábyrgð en treyst forystu og ráðgjöf sérfræðinga,“ sagði Guðni og ræddi því næst um þá sérfræðinga sem vísað hafa veiginn í viðbrögðum við heimsfaraldrinum.
„Íslendingar hafa löngum haft lítið dálæti á þeirri manntegund,“ sagði Guðni er hann ræddi um sérfræðingana og bætti við að víst væri að sérfróðum gæti skjátlast eins og öðrum.
„Við erum hins vegar vel sett með einvalalið okkar í almanna- og veiruvörnum. Þau eru löngu orðin heimilisvinir, Alma landlæknir, Þórólfur sóttvarnalæknir og Víðir sem allir hlýði, yfirlögregluþjónn með meiru. Þau setja sig ekki á háan hest, þau viðurkenna að eiga ekki svör við öllum spurningum og þau eru opinská um þann vanda sem við er að etja,“ sagði forsetinn.
Hann ræddi einnig efnahagslega tjónið sem heimsfaraldurinn er að valda og sagði ferðaþjónustuna, þá mikilvægu atvinnugrein, og hagkerfið allt, hafa beðið hnekki.
„Líf okkar er gengið úr skorðum og verður svo enn um sinn. Dást má að því hvernig landsmenn hafa lagað sig að nýjum háttum, unnið heima og sinnt heilsunni þótt nú vanti laugina og ræktina. En auðvitað getur kvíði sótt að. Margir hafa misst vinnu sína, aðrir þola illa alla röskun. Íbúar landsins með erlendar rætur skilja ekki allt sem fram kemur um stöðu mála og óttast um vini og ættingja utan Íslands. Spenna ríkir á sumum heimilum og jafnvel hættara við en áður að fólk eigi þar ekki skjól heldur sæti þvert á móti ofbeldi, eins og sorgleg dæmi sanna. Við skulum vera á varðbergi, við skulum hjálpa þeim sem eru hjálpar þurfi,“ sagði Guðni.
„En sigri munum við fagna“
Forsetinn sagði að enn myndi reyna á samstöðu landsmanna og seiglu. Vandinn yrði eflaust viðameiri áður en sigri yrði fagnað. „En sigri munum við fagna. Hér eru þær traustari en víða, undirstöður samfélags og þjóðarbúskapar. Hér býr dugleg og menntuð þjóð í fögru landi, sjálfstæð þjóð með eigin auðlindir til sjávar, sveita og heiða, að ekki sé minnst á auðmagn huga og handa,“ sagði Guðni, sem minnti að lokum á að senn kemur vorið, „sunnan yfir sæinn breiða.“
„Já, hvíslum glöð út í myrkrið og minnumst þess jafnframt að alltaf birtir til. Við höfum séð það svartara, við munum sjá það bjartara,“ sagði forseti Íslands.