Forsætisráðherra segir að margt hafi gerst frá því að síðast var haldinn blaðamannafundur og samkomutakmarkanir settar á. „Ég er nokkuð viss um að okkur líður öllum eins og sá tími sé lengri en hann er í raun og veru,“ sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra á blaðamannafundi ríkisstjórnarinnar í Safnahúsinu við Hverfisgötu í dag þar sem kynnt voru áform um afléttingu samkomutakmarkana í skrefum.
Katrín sagði að hér á landi hafi frá upphafi verið beitt hörðum sóttvarnaraðgerðum til að hefta útbreiðslu veirunnar. Þær aðgerðir munu enn allar verða við lýði til 4. maí er fyrstu skrefin í að aflétta takmörkunum verða tekin. Forsætisráðherra sagði að með þessum aðgerðum hafi tekist að fækka smitum dag frá degi. „En það þýðir ekki að kálið sé sopið þó það sé komið í ausuna. Sigurinn er ekki í höfn.“
Frá upphafi var það markmið yfirvalda á Íslandi að hefta útbreiðslu faraldursins, vernda viðkvæmustu hópana og tryggja að heilbrigðiskerfið myndi ráða við álagið. „Við getum sagt það að jú, það lítur út fyrir að við séum að ná þessum markmiðum,“ sagði Katrín og benti á að næstu skref væru að fækka smitum enn meira og að ná „fullkomnum tökum á veirunni.“
Katrín líkti því sem framundan er við fjallgöngu þar sem síðasta brekkan er eftir. Freistandi væri að taka sér hvíld á göngunni, setjast niður og borða nestið og sleppa því að fara upp á tindinn. „En það er ekki í boði,“ sagði hún.
Og ef haldið væri áfram upp brekkuna og alla leið á tindinn þá væri hætta enn fyrir hendi, hætta á að maður flýti sér ansi hratt niður. „Þá rennur maður í skriðunni og endar á nefinu og það ætlum við ekki að gera.“
Katrín sagði að takmörkunum yrði aflétt í fáum en stórum skrefum. „Við þurfum að hafa úthald til að fara niður brekkuna nægilega hægt til að tryggja að smitið blossi ekki upp aftur.“
Stóra markmiðið sé að ná fullum tökum á veirunni.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra sagði á fundinum að faraldurinn hefði hingað til verið öllum mikið lærdómsferli; álagspróf á innviði íslensks samfélags. Ísland gæti síðar meir sagt að það hefði staðist það álag en prófinu er ekki enn lokið. „Þetta er sennilega eitt stærsta verkefni sem við höfum tekist á hendur sem samfélag,“ sagði Svandís. Við nytum góðs af því að vera eyland og lítið samfélag þar sem hægt væri að koma upplýsingum hratt á framfæri. Íslendingar hefðu sýnt að þeir standa saman þegar á móti blæs.
Í kynningu sinni á afléttingu takmarkana lagði hún ríka áherslu á að mikilvægt væri að huga áfram vel að sóttvörnum svo sem handþvotti og að virða tveggja metra fjarlægðarmörkin.
Aflétting takmarkana í hnotskurn:
Frá 4. maí munu fjöldatakmörk samkomubanns miðast við 50 einstaklinga í stað 20 og skólastarf í leik- og grunnskólum verður með eðlilegum hætti. Framhalds- og háskólar geta einnig opnað dyr sínar fyrir nemum á ný, en meginreglan um að einungis 50 manns megi vera í sama rými verður í gildi.
Hárgreiðslustofur, nuddstofur, sjúkraþjálfun, söfn, snyrtistofur og fleiri þjónustur sem þurftu að loka í marsmánuði munu geta opnað á ný, en þó ber að tryggja tveggja metra fjarlægð á milli viðskiptavina eins og hægt er.
Tannlækningar verða heimilar á ný, rétt eins og öll önnur heilbrigðisstarfsemi sem ekki felur í sér valkvæðar skurðaðgerðir eða aðrar ífarandi aðgerðir.
Skipulagt íþróttastarf barna á leik- og grunnskólaaldri getur hafist að nýju, utandyra, en þó með þeim takmörkunum að ekki mega fleiri en 50 vera saman í hóp og halda skal tveggja metra fjarlægðinni eins og mögulegt er, sérstaklega hjá eldri börnum.
Annað skipulagt íþróttastarf verður heimilt utandyra, en þó áfram með miklum takmörkunum. Þannig mega ekki fleiri en fjórir einstaklingar æfa eða leika saman, snertingar verða óheimilar og halda skal tveggja metra fjarlægð á milli fólks. Þá þarf að halda notkun á sameiginlegum búnaði í lágmarki, en annars sótthreinsa búnaðinn á milli notkunar.
Ýmislegt annað helst óbreytt. Þannig verða sundlaugar og líkamsræktarstöðvar áfram lokaðar og einnig skemmtistaðir, barir, spilasalir og aðrir svipaðir staðir.