Aðeins níu ný smit af COVID-19 greindust á landinu síðasta sólarhring, sjö á höfuðborgarsvæðinu og tvö á Vestfjörðum. Þriðjungur þeirra sem greindist var þegar í sóttkví.
Fyrsta tilfelli nýju kórónuveirunnar var staðfest hér á landi þann 28. febrúar. Síðan þá hafa 1.720 manns greinst með veiruna, „og við höfum því miður misst átta sjúklinga,“ sagði Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir á blaðamannafundi í Safnahúsinu í dag þar sem farið var yfir áform um afléttingu á samkomutakmörkunum vegna faraldursins.
Hingað til hafa rétt yfir 100 manns verið lagðir inn á sjúkrahús vegna COVID-19, þar af þrjátíu á gjörgæslu. Af þeim hafa 26 þurft á meðferð í öndunarvél að halda.
Þórólfur segir að hápunkti faraldursins hafi verið náð fyrir um viku og að nú sé farið að draga úr álagi á heilbrigðiskerfið. Átta manns liggja núna á gjörgæsludeildum. Þrír þeirra eru í öndunarvél á Landspítalanum en enginn er í öndunarvél á Sjúkrahúsinu á Akureyri.
Faraldurinn hefur að sögn Þórólfs verið á niðurleið síðustu daga sem þakka megi þeim miklu samfélagslegu aðgerðum sem verið hafa í gangi hér á landi og þeim samtakamætti sem finna má í öllu samfélaginu; meðal almennings, fyrirtækja, félagasamtaka og stjórnvalda.
Álag á sjúkrahús landsins hefur verið mikið að sögn Þórólfs og að það megi auðveldlega ímynda sér hvað þar hefði gerst ef faraldurinn hefði verið meiri en raunin varð. Ítrekar hann hversu mikilvægt það er að halda faraldrinum niðri „eins og mögulegt er“ til að vernda heilbrigðisstarfsemina.
Verður að stíga skref hægt og bítandi
Reynt verður á næstunni að aflétta þeim takmörkunum sem settar hafa verið á daglegt líf fólks. „Það er mjög mikilvægt að aflétta þeim og að gera það hægt og bítandi svo að fáum ekki faraldur aftur og þurfum að stíga skref til baka,“ segir Þórólfur. Stór hópur í samfélaginu er enn móttækilegur fyrr veirunni.
Segir hann ýmsar hugmyndir í gangi um hvernig hægt sé að takmarka með einhverjum hætti ferðir ferðamanna hingað til lands og ferðalög Íslendinga jafnvel líka. Bendir hann á að faraldurinn hér sé að mestu tilkominn vegna ferða Íslendinga erlendis en ekki ferðamanna sem hingað hafa komið.
Samtakamátturinn einstakur
Þórólfur hvetur allan almenning til að halda samstöðunni áfram. „Hún er alveg einstök. Samtakamáttur okkar og almennings verður lykillinn að því að við getum staðið upp og hrósað sigri á þessari veirusýkingu.“
Á fundinum var Þórólfur spurður hvort að hætt yrði við að aflétta takmörkunum ef smitum færi aftur að fjölga. Hann svaraði því til að yfirvöld væru tilbúin til að takast á við hópsýkingar sem gætu komið upp á ákveðnum svæðum. Ef að mikil útbreiðsla á landsvísu kæmi upp aftur þá gæti þurft að grípa til harðra aðgerða á ný.
Á meðan tiltölulega fáir hafi sýkst og þar með myndað mótefni þyrfti að huga að því hvernig hægt er að vernda þann stóra hóp sem enn er móttækilegur. Það væri hægt með einhvers konar ferðatakmörkunum en allar aðgerðir miðast við að vinna sér tíma þar til meðferð við veirusýkingunni finnst, veiran deyr út í heiminum (eins og gerðist með SARS á einu ári) eða að bóluefni finnst. „Við höfum verk að vinna en verðum að eiga við þetta eftir því sem faraldurinn verður hér og erlendis.“