Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra sagði á blaðamannafundi ríkisstjórnarinnar í Safnahúsinu í dag að enn væru ekki komnar fram neinar tillögur um auknar ferðatakmarkanir hér á landi en að ýmsir þættir væru í skoðun. „Auðvitað veltur þetta ekki aðeins á okkur heldur á samstarfi annarra ríkja og viðbrögðum annarra ríkja.“
Hins vegar myndu stjórnvöld, að tillögu framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, framlengja ferðatakmarkanir sem gilda á ytri landamærum aðildarríkja Schengen. Enn væru svo ýmis lönd með takmarkanir á sínum innri landamærum. „Í morgun barst orðsending frá framkvæmdastjórn ESB þar sem er lagt til að aðildarríkin framlengi ferðatakmarkanirnar til og með 15. maí næstkomandi. Ríki eru þegar farin að staðfesta slíka framlengingu og Ísland mun gera slíkt hið sama í þessari viku.“
Hún sagði að ákvarðanir okkar væru háðar ýmsu, m.a. framboði og eftirspurn annarra ríkja á takmörkunum á þeirra landamærum. Leitað væri upplýsinga hjá öðrum löndum vegna þessa.
Áslaug sagði að almannavarnakerfið, sem er samstarf margra aðila, hafi skilað mjög miklum árangri. „En við erum enn á neyðarstigi almannavarna og við munum vera þar áfram á meðan einhverjar takmarkanir eru í gildi.“
Dómsmálaráðherra sagði að aflétting á ýmsum takmörkunum sem nú hafa verið kynntar muni hafa jákvæð áhrif á þúsundir manna. „Það verður ánægjulegt að sjá skólastarf fara í gang með eðlilegum hætti sem og fyrirtæki að eiga auðveldara með að starfa með hefðbundnara sniði.“
Áslaug sagði að aðgerðirnar hefðu haft þau jákvæðu áhrif að draga úr smitum en að neikvæðu áhrifin væru einnig til staðar. „Við höfum fyrst og fremst verið að fást við þetta sem heilbrigðisvá og höfum tekist á við verkefnið undir þeim formerkjum og frumhlutverk okkar í þessu, almannavarna og allra, er að vernda líf og heilsu fólks.“
Sagði hún Íslendinga ekki hafa látið óttann ná yfirhöndinni og að „hvernig við bregðumst við mótlæti segir mikið um okkur sjálf“.