Frá 4. maí munu fjöldamörk samkomubanns miðast við 50 einstaklinga í stað 20 og skólastarf í leik- og grunnskólum verður með eðlilegum hætti. Framhalds- og háskólar geta einnig opnað dyr sínar fyrir nemum á ný, en meginreglan um að einungis 50 manns megi vera í sama rými verður í gildi.
Þetta kynnti Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra á blaðamannafundi sem fram fór í Safnahúsinu við Hverfisgötu kl. 12.
Hárgreiðslustofur, nuddstofur, sjúkraþjálfun, söfn, snyrtistofur og fleiri þjónustur sem þurftu að loka í marsmánuði munu geta opnað á ný, en þó ber að tryggja tveggja metra fjarlægð á milli viðskiptavina eins og hægt er.
Tannlækningar verða heimilar á ný, rétt eins og öll önnur heilbrigðisstarfsemi sem ekki felur í sér valkvæðar skurðaðgerðir eða aðrar ífarandi aðgerðir.
Skipulagt íþróttastarf barna á leik- og grunnskólaaldri getur hafist að nýju, utandyra, en þó með þeim takmörkunum að ekki mega fleiri en 50 vera saman í hóp og halda skal tveggja metra fjarlægðinni eins og mögulegt er, sérstaklega hjá eldri börnum.
Annað skipulagt íþróttastarf verður heimilt utandyra, en þó áfram með miklum takmörkunum. Þannig mega ekki fleiri en fjórir einstaklingar æfa eða leika saman, snertingar verða óheimilar og halda skal tveggja metra fjarlægð á milli fólks. Þá þarf að halda notkun á sameiginlegum búnaði í lágmarki, en annars sótthreinsa búnaðinn á milli notkunar.
Ýmislegt annað helst óbreytt. Þannig verða sundlaugar og líkamsræktarstöðvar áfram lokaðar og einnig skemmtistaðir, barir, spilasalir og aðrir svipaðir staðir.