„Ég ætla ekki að leggja til að þið standið upp og klappið og hrópið húrra en það væri full ástæða til þess,“ sagði Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, um árangur aðgerða þríeykisins Víðis Reynissonar, Þórólfs Guðnasonar og Ölmu Möller við að hefta útbreiðslu kórónuveirunnar í íslensku samfélagi. Faraldurinn væri nú á útleið.
Kári var gestur á upplýsingafundi almannavarna í dag. Þar fór hann yfir niðurstöður vísindagreinar sérfræðinga Íslenskrar erfðagreiningar og samstarfsfólks hjá Landlæknisembættinu og Landspítala sem birt var í í New England Journal of Medicine í gær. Greinin byggir á rannsókn á útbreiðslu SARS- Cov-2 veirunnar á Íslandi sem veldur sjúkdómnum COVID-19.
Niðurstöðurnar sýna að 0,8 prósent fólks í samfélaginu er smitað sem ýtir undir kenningar um að einkennalausir geti verið smitberar.
Þá telja greinarhöfundar að þótt aðgerðir heilbrigðisyfirvalda, til að halda faraldrinum niðri hafi borið árangur, sé þörf á meiri gögnum, til að hægt sé að taka upplýstar ákvarðanir um hvernig eigi að koma böndum á veiruna í framhaldinu.
Íslensk erfðagreining hefur síðan 13. mars skimað fyrir veirunni í íslensku samfélagi meðal 28 þúsund Íslendinga. „Í morgun kíkti ég aldrei þessu vant á heimasíðu covid.is og sá mér til mikillar furðu hvernig menn hafa verið að skoða hvernig veiran berst manna á milli,“ sagði Kári. Af 1.727 þekktum smitum eru aðeins átta sem ekki er vitað hvernig sýktust. „Þetta er alveg ótrúlegur árangur og lykillinn að því hversu vel hefur tekist til. Rakningarteymið okkar er alveg ótrúlegt. Á engan sinn líkan nokkurs staðar í heiminum. Ég er býsna montinn af þessu fólki.“
Íslensk erfðagreining hefur raðgreint 1.320 staðfest smit. „Þessi veira er skringileg skepna með fullt af stökkbreytingum,“ sagði Kári. „Hún hefur ferðast um svo margt fólk að hún hefur fengið mörg tækifæri til að stökkbreytast.“
Sagði Kári að veiran bæri sérstök merki fyrir ákveðin landsvæði, þannig væri hægt að sjá hvaðan hún kæmi. Stökkbreytingamynstur hennar er sérstakt fyrir Austurríki, Ítalíu og England, svo dæmi séu tekin.
Veiran fyrr á ferð í Bretlandi en menn töldu
Kári rifjaði upp að fyrstu tilfellin hefðu komið til landsins með Íslendingum sem voru í skíðaferðum í Austurríki og á Ítalíu. Vel hafi svo tekist að hemja útbreiðslu sjúkdómsins frá þessum hópi.
En þegar Íslensk erfðagreining tók að raðgreina sýni kom í ljós að á meðan verið var að einbeita sér að fólki sem var að koma úr Ölpunum kom veiran inn í landið með fólki sem var að koma frá ýmsum öðrum löndum. Töluverður hópur smitaðra kom frá Bretlandi. Sagði Kári þetta sýna að veiran hafi verið búin að dreifa sér víða þar í landi áður en að fólk gerði sér grein fyrir því.
Kári talaði sérstaklega um það hversu veiran leggst mismunandi á fólk. Margir fá lítil eða engin einkenni á meðan aðrir veikjast alvarlega og þurfa að leggjast inn á gjörgæslu og jafnvel í öndunarvél. Skýringar á þessu er hægt að rannsaka með tilliti til erfðamengis fólks. Þá sagði hann að veiran væri „andstyggileg“ að því leyti að hún gæti smitast frá fólki sem hefði lítil eða engin einkenni. „Þessi veira gæti því haldið áfram að flakka um samfélagið því einkennalaust fólk smitar.“
Mótefni hjá sýktum staðfest
Íslensk erfðagreining hefur þegar hafist handa við að skima fyrir mótefnum gegn veirunni hjá fólki. Kári sagðist reikna með að sú skimun sýndi hver hin raunverulega dreifing veirunnar er í samfélaginu.
Þegar er búið að mótefnamæla milli 700-800 manns þar af eru um 500 sem ekki er vitað til að hafi sýkst. Hann segir að þegar sjáist það mynstur sem búist var við: Meirihluti þeirra sem hefur sýkst er kominn með mótefni.
Fjölmargar þjóðir heims eru nú að hefja mótefnamælingar. Kári sagði að til þess yrði að horfa þegar takmarkanir á ferðalögum til og frá Íslandi væru ákveðnar. „Þú vilt ekki hleypa fólki inn í landið frá löndum sem hafa ekki verið að gera nokkurn skapaðan hlut.“
Framlag Íslenskrar erfðagreiningar til þróunar bóluefnis gegn veirunni verður að sögn Kára það að sýna fjölbreytilega byggingu hennar. Hann sagðist bjartsýnni en Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir á að bóluefni verði fljótt aðgengilegt. Klínískar prófanir á því væru þegar hafnar. Sagðist hann gera sér vonir um að það verði, í einhverju formi, tilbúið innan árs.