Staðfest smit af kórónuveirunni eru orðin 1.727 hér á landi. Í gær voru þau 1.720 og hefur þeim því aðeins fjölgað um sjö síðasta sólarhringinn. Í dag er 2.101 í sóttkví en í gær var fjöldinn 2.503. Alls hafa 16.726 lokið sóttkví.
Í dag eru 642 einstaklingar með virk COVID-19 smit en í gær var fjöldinn 723. Elsti sjúklingurinn er 103 ára gömul kona, íbúi á öldrunarheimilinu Bergi í Bolungarvík.
1.077 hafa náð bata.
Alls hafa 37.386 sýni verið tekið hér á landi frá upphafi faraldursins.
Þegar gefnar eru út upplýsingar um hve smituðum hefur fjölgað mikið frá deginum áður er það ekki alltaf svo að sambærileg tala birtist í súluriti dagsins. Ástæðan er sú að birting upplýsinga um smit taka mið af því hvenær sýnið var tekið en ekki hvenær það var greint.
Enn er yfir helmingur þeirra sem greinist með sýkingu þegar í sóttkví sem sóttvarnalæknir hefur sagt sýna mikilvægi þeirrar aðgerðar við að hefta útbreiðslu veirunnar.
Á sjúkrahúsi liggja 36 sjúklingar vegna COVID-19 sjúkdómsins, þar af átta á gjörgæslu, samkvæmt því sem fram kemur á vefnum covid.is.
Af þeim sem greinst hafa með COVID-19 á Íslandi eru átta látin.
Uppfærð spá
Í spálíkani sérfræðinga Háskóla Íslands, sem uppfært var í gær með gögnum til og með 13. apríl er gert er ráð fyrir því að á meðan þessi bylgja faraldursins gangi yfir muni rúmlega 1.700 manns á Íslandi vera greind með COVID-19, en talan gæti náð nær 2.100 manns samkvæmt svartsýnni spá.
Gert er ráð fyrir að fjöldi greindra einstaklinga með virkan sjúkdóm haf þegar náð hámarki en gæti orðið viku seinna samkvæmt svartsýnni spá.
Þá er gert ráð fyrir að á meðan að þessi bylgja faraldursins gangi yfir muni 110 manns þarfnast innlagnar á sjúkrahúsi, en gæti náð hátt í 150 manns.
Mesta álag á heilbrigðisþjónustu vegna sjúkrahúsinnlagna verður fyrir miðjan apríl en þá er gert ráð fyrir að um það bil 60 einstaklingar geti verið inniliggjandi á sama tíma, en svartsýnni spá er 90 einstaklingar.
Gert er ráð fyrir því að á tíma faraldursins muni um 24 einstaklingar veikjast alvarlega, þ.e. þurfa innlögn á gjörgæslu, á tímabilinu en svartsýnni spá er 35 einstaklingar.
Mesta álag á gjörgæsludeildir gæti orðið í annarri viku apríl, en þá er búist við því að 10 manns liggi þar inni á sama tíma, en samkvæmt svartsýnni spá gætu það verið 18 manns.