Stjórnvöld kynntu í dag breytingar á námslánakerfinu, sem hafa verið í ferli frá því að lífskjarasamningarnir voru undirritaðir á almenna vinnumarkaðnum síðasta vor. Þær breytingar sem greiðendur námslána munu helst finna fyrir eru þær að tekjutengd afborgun lánanna lækkar er verðtryggðir vextir námslána lækka úr 1 prósenti niður í 0,4 prósent.
Tvö dæmi eru tekin, í myndbandskynningu stjórnvalda, um hvernig lækkun vaxta og endurgreiðsluhlutfalls lána mun hafa áhrif á afborganir námslána að hausti. Þannig mun barnlaus einstaklingur með 700 þúsund krónur í mánaðarlaun greiða 25.000 krónum minna af láni sínu í september og afborganir hjóna með 1,4 milljónir í samanlögð mánaðarlaun munu lækka um 50 þúsund krónur samanlagt.
Ábyrgðarmenn á um 30 þúsund námslánum, sem tekin voru fyrir árið 2009 og eru í skilum, verða einnig felldir brott. Þetta er gert til að tryggja jafnræði við þá sem tóku lán eftir þann tíma.
Þá verður uppgreiðsluafsláttur hækkaður upp í allt að 15 prósent, samkvæmt tilkynningu á vef Stjórnarráðsins.
Núvirtur kostnaður þessara aðgerða er metinn um 14 milljarðar króna, af starfshópi sem skipaður var til þess að endurskoða reglur um endurgreiðslu námslána. „Hann fellur til yfir lengri tíma og unnt er að láta greiðendur námslána njóta góðs af sterkri fjárhagsstöðu Lánasjóðsins sem fjármagnar aðgerðirnar,“ segir um kostnaðinn í tilkynningu stjórnvalda.
Háskólamenn fagna
Bandalag háskólamanna segist fagna boðuðum aðgerðum ríkisstjórnarinnar. „Þær munu koma tugþúsundum Íslendinga til góða, bæði félagsmönnum aðildarfélaga BHM sem og öðrum sem greiða af námslánum,“ segir í tilkynningu frá BHM.
„BHM hefur árum saman barist fyrir því að dregið verði úr endurgreiðslubyrði námslána og að ábyrgðamannakerfið verði afnumið að fullu. Með þeim breytingum sem ríkisstjórnin hefur nú boðað eru þessi baráttumál loksins í höfn. Kaflaskil hafa orðið í hagsmuna- og réttindabaráttu BHM fyrir félagsmenn,“ segir enn fremur í tilkynningu félagsins.