Sérstakur starfshópur vinnur nú að því að móta hugmyndir um með hvaða hætti ferðatakmarkanir til og frá landinu verði á næstunni. Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði þrennt í stöðunni: Gera ekkert, loka landinu alveg eða fara milliveginn.
Þórólfur segir að tölur dagsins séu „ánægjulegar“ því aðeins sjö ný smit hafi greinst síðasta sólarhringinn og að álag á spítalana færi nú minnkandi. 32 liggja á sjúkrahúsum vegna COVID-19, þar af átta á gjörgæslu. Þrír þeirra eru í öndunarvél, allir á Landspítalanum.
Sóttvarnalæknir segir að niðursveifla sé nú greinileg í faraldrinum. Á næstu vikum og mánuðum megi þó áfram búast við einstaka smitum og jafnvel hópsýkingum, „ef við gætum ekki að okkur“. Því er mikilvægt að halda sóttvarnarráðstöfunum áfram, þvo vel hendur, spritta, halda tveggja metra fjarlægðarmörkunum og forðast mannmarga staði.
Þórólfur sagði ljóst að setja þyrfti einhvers konar hömlur á erlenda og íslenska ferðamenn til og frá landinu. Starfshópur sé nú að störfum til að kanna málið til hlítar og er von á niðurstöðum á næstu dögum. Erlendis eru margir einnig að skoða þessi mál, m.a. Alþjóða heilbrigðismálastofnunin.
Eftir að starfshópurinn skilar af sér mun Þórólfur senda stjórnvöldum tillögur um hvernig takmörkunum á ferðalögum skuli háttað til að koma í veg fyrir að smit blossi hér upp aftur í samfélaginu.
Hann segist oft hafa verið spurður að því af hverju erlendir ferðamenn hafi ekki verið settir í sóttkví við komuna til landsins um leið og slíkar hömlur hafi verið settar á Íslendinga sem voru að koma að utan. En að nú sé það í skoðun. Staðan er gjörbreytt frá því sem hún var. Áður hafi faraldurinn ekki verið mjög útbreiddur erlendis líkt og núna.
Hvað tilslakanir á samfélagsbanni og öðrum takmörkunum varðar sagði Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn hjá ríkislögreglustjóra, að frekari upplýsingar en þær sem komu fram á blaðamannafundi ríkisstjórnarinnar í gær yrðu auglýstar fljótlega.