Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata, gagnrýndi þingforseta, Steingrím J. Sigfússon, í pontu á Alþingi í upphafi þingfundar í dag fyrir að halda dagskrá þingsins áfram þrátt fyrir samkomubann.
„Nú segja lög í landinu skýrt að það sé lögbundin skylda hvers einasta einstaklings – með leyfi forseta – að gera sér allt far um að sýkja hvorki sjálfan sig né aðra að svo miklu leyti sem framkvæmanlegt er. Það er komin stefna hér innan alþingis að það megi ekki vera nema 20 þingmenn á þessari efri deild hérna,“ sagði Jón Þór.
Þingmaðurinn taldi síðan 26 manneskjur í kringum sig, „og það eru bara þeir sem ég sé“.
Karpað við þingforseta í allan gærdag
„Þetta er vegna þess að við þurfum að koma hingað og benda þingforseta á að hann er ekki að fara í samræmi við það sem búið er að gefa yfirlýsingar um í samfélaginu um að virða þetta samkomubann. Það var karpað við hæstvirtan forseta í allan gærdag í gegnum tölvupósta og hann veit það að ef hann sé að fara að setja mál á dagskrá sem ágreiningur er um að þá að sjálfsögðu mætum við þingmenn hér og virðum lýðræðið,“ sagði Jón Þór.
Samt héldi þingforseti þessu til streitu. „Að halda þingfundinn svona og halda dagskránni svona, en hann hefur dagskrárvaldið. Þetta er ólíðandi að bjóða starfsfólki Alþingis upp á þetta sem er komið í enn meiri sýkingarhættu vegna þessa. Það er ólíðandi að bjóða þinginu upp á þetta, það er ólíðandi að bjóða lýðræðinu upp á þetta. Forseti þarf að afmá þessa dagskrá sem ágreiningur er um og virða sóttvarnalög.“
Sleit fundinum um hæl
Steingrímur svaraði og sagði að út af dagskrá yrðu tekin fyrsta til og með níunda dagskrármálið. „Fleira liggur þá ekki fyrir á þessum fundi. Til næsta fundar verður boðað með dagskrá. Fundinum er slitið,“ sagði þingforseti og sleit fundinum.
Óundirbúnar fyrirspurnir til ráðherra voru á dagskrá við upphaf þingfundar í morgun. Þá áttu að vera til svara forsætisráðherra, fjármála- og efnahagsráðherra, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, heilbrigðisráðherra, félags- og barnamálaráðherra og dómsmálaráðherra.
Ekki liggur ljóst fyrir hvenær næsti þingfundur verður settur á dagskrá.
Staðan grafalvarleg
Halldóra Mogensen, þingflokksformaður Pírata, segir í stöðuuppfærslu á Facebook að þingforseti hafi slökkt á þinginu.
„Undanfarnar vikur hafa þingmenn verið hvattir til þess að vera sem minnst á þingi og í þingsal. Einhverjir þingmenn eru í sóttkví og geta því ekki komið í þinghúsið. Staðan hefur óneitanlega áhrif á getu okkar til að taka þátt í lýðræðislegum umræðum. Hingað til hefur þetta sloppið því það hefur verið sameiginlegur skilningur þingmanna stjórnarandstöðunnar að fyrir utan fasta liði eins og óundirbúnar fyrirspurnir og störf þingsins verða einungis til umræðu og afgreiðslu brýn mál sem tengjast kóvid,“ skrifar hún.
Hún segir að nú horfi þingmenn fram á það að þrátt fyrir að aðstæður hafi ekki breyst varðandi getu þingmanna til að taka þátt í umræðum og þrátt fyrir mótmæli meirihluta stjórnarandstöðunnar hafi forseti sett á dagskrá hrúgu af ríkisstjórnarmálum sem ekki séu brýn COVID-mál og eitthvað af þeim séu umdeild mál.
„Staðan er grafalvarleg þegar forseti misnotar aðstæður til að koma málum ríkisstjórnarinnar í gegn. Málum sem eru umdeild og þarfnast augljóslega umræðu. Þetta gerir hann með þöglu samþykki ríkisstjórnarinnar og þegar við tölum um það í fundarstjórn forseta þá slekkur forseti á þinginu,“ skrifar hún.