Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir telur brýnt að einhverskonar reglur um sóttkví nái einnig yfir ferðamenn sem hingað koma, til þess að ný smit berist ekki inn í landið. Eins og staðan er í dag eru engar slíkar reglur gildandi, en reyndar eru nær engir ferðamenn að koma til landsins.
„Ég tel mikilvægt að einhverskonar hömlur muni gilda líka um þá til þess að tryggja að við fáum ekki smit hingað til Íslands,“ sagði Þórólfur, á daglegum upplýsingafundi almannavarna í dag. Í kjölfarið benti hann á að allvíða er ferðamönnum nú gert skylt að fara í sóttkví, til dæmis í Danmörku.
Eins og áður hefur komið fram er starfshópur að skoða hvernig þetta atriði verður útfært á Íslandi og sagði Þórólfur að tillögur hópsins myndu liggja fyrir núna „öðru hvoru megin við helgina.“ Í kjölfarið mun sóttvarnalæknir senda heilbrigðisráðherra minnisblað með tillögu að útfærslu.
Hafa auga á komu Norrænu
Samkvæmt reglunum eins og þær eru hér á landi í dag geta ferðamenn komið til Íslands án þess að fara í sóttkví, á meðan að þeir sem búa á Íslandi þurfa að fara í sóttkví er þeir koma erlendis frá. Reyndar reynir lítið á það, þar sem nær engir ferðamenn eru að koma.
Það gæti þó breyst innan skamms, en fram kom í máli Þórólfs á upplýsingafundi almannavarna í dag að farþegaferjan Norræna kæmi mögulega með einhverja ferðamenn til Seyðisfjarðar í næstu viku og yfirvöld væru að fylgjast með því. Óljóst væri þó hversu margir ferðamenn kæmu með ferjunni.
Á vef Austurfréttar segir að búist sé við ríflega tuttugu farþegum með skipinu í næstu ferð, en færeyska skipafélagið Smyril Line hefur ákveðið að taka aftur upp farþegasiglingar eftir að hafa einungis flutt frakt undanfarinn mánuð.
Sóttvarnalæknir sagði að það væri mikilvægt að alþjóðasamfélagið myndi í sameiningu leita lausna á því hvernig ferðamennsku yrði háttað á næstu vikum og mánuðum.