Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, segir að þær áherslur sem hann og Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, hafi barist fyrir innan Alþýðusambands Íslands (ASÍ) á liðnum misserum hafi verið „sópað undir teppi af þeim sem núna öllu ráða innan ASÍ“. Þetta kemur fram í stöðuuppfærslu hjá Vilhjálmi á Facebook í dag en hann sagði af sér embætti sem 1. varaforseti ASÍ í byrjun apríl.
ASÍ hefur kynnt áherslur sínar fyrir stjórnvöldum vegna næsta efnahagspakka ríkisstjórnarinnar í kjölfar COVID-19 en í tilkynningu frá sambandinu kemur fram að það leggi áherslu á að þessi efnahagspakki tryggi meðal annars eftirfarandi þætti:
Fyrir fólk, ekki fjármagn
- Aðgerðir stjórnvalda eiga fyrst og fremst að snúast um að tryggja afkomu launafólks og hagsmuni almennings.
- Tryggja þarf nægilegt fjármagn og nauðsynlegar aðgerðir til að bæta stöðu hópa atvinnulausra og þeirra sem hafa veika stöðu á vinnumarkaði.
- Námsmenn hafi möguleika á eðlilegum framgangi í námi. Beina þarf fólki inn í menntun og framhaldsfræðslu sem virkar til framtíðar og tryggja að stuðningur við nýsköpun stuðli með beinum hætti að atvinnusköpun.
- Stjórnvöld þurfa að sýna fram á að aðgerðir þeirra stuðli að jöfnuði, jafnrétti og sjálfbærni og að staðinn sé vörður um heimilin í landinu í gegnum efnahagslægðina.
- Stuðningur við fyrirtæki á að vera skilyrtur því að störfum sé viðhaldið eða ný störf sköpuð og grundvallarréttindi launafólks séu virt.
- Til að hljóta frekari stuðning þurfi fyrirtæki og eigendur að hafa nýtt eigin bjargir og undirgangast skilyrði um að greiða ekki út arð eða kaup hlut í sjálfum sér næstu tvö ár. Fyrirtæki sem svindla á úrræðum stjórnvalda eiga að sæta viðurlögum.
Afkomuöryggi fyrir alla
- Bráðabirgðaákvæði um hlutabætur atvinnuleysistrygginga þarf að framlengja en að óbreyttu fellur það úr gildi þann 1. júní n.k. Hækka þarf atvinnuleysisbætur þegar í stað en grunnbætur eru umtalsvert lægri en lágmarkslaun og þak vegna tekjutengingar er oft lágt.
- Einstaklingar með undirliggjandi sjúkdóma og þungaðar konur sem skv. ráðleggingum heilbrigðisyfirvalda eiga að halda sig heima þurfa að falla undir lög um laun í sóttkví.
- Tryggja þarf afkomu launafólks hjá fyrirtækjum sem skv. fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda þurfa að hætta starfsemi alfarið og foreldra sem ekki geta sótt vinnu að fullu vegna skerts skólastarfs í leik- og grunnskólum.
- Tryggja þarf húsnæðisöryggi, meðal annars með því að hækka húsaleigubætur, flýta hlutdeildarlánum fyrir fyrstu kaupendur og fjölga almennum íbúðum.
- Aðgerðir stjórnvalda þurfa að ná til öryrkja og ellilífeyrisþega.
- Ríki og sveitarfélög og fyrirtæki sem vel standa verða að tryggja sumarstörf fyrir námsmenn á komandi sumri, samhliða því að boðið verði upp á styrki til námsmanna til að stunda nám á sumarönn. námsmanna til að stunda nám á sumarönn.
Gefur ekki mikið fyrir þessar áherslur
Vilhjálmur gefur ekki mikið fyrir þessar áherslur en hann segir í stöðuuppfærslu sinni að ekki sé vikið einu orði að flestum þeim atriðum sem þeir Ragnar Þór hafi barist fyrir.
Hann útlistar þau atriði sem þeir hafi lagt mikla áherslu á. Þau séu eftirfarandi:
- Verja heimilin fyrir hugsanlegu verðbólguskoti með því að setja þak á neysluvísitöluna.
- Að heimilunum standi til boða greiðsluhlé í allt að eitt ár.
- Krefja fjármálakerfið þar með talið lífeyrissjóðina að skila stýrivaxtalækkun Seðlabankans til neytenda.
- Að staðið verði við bann á 40 ára verðtryggðum lánum.
- Að verja störfin.
- Að verja kaupmátt launafólks.
Hann segir að ekkert af þessum atriðum séu hjá ASÍ og ljóst sé að um stefnubreytingu sé um að ræða af hálfu núverandi forystu ASÍ.
„Ég harma þessa stefnubreytingu en hún kemur mér hinsvegar ekki á óvart, en fyrirsögnin sem birtist í áherslum ASÍ: Fyrir fólk, ekki fjármagn, endurspeglast alls ekki í þeim áherslum ASÍ kynnti rétt í þessu og er það dapurt!“
Það er ljóst að þær áherslur sem ég og Ragnar Þór formaður VR höfum barist fyrir innan ASÍ á liðnum misserum hafa verið...
Posted by Vilhjálmur Birgisson on Thursday, April 16, 2020