Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn minnti á að það er ekki kominn 4. maí, við upphaf daglegs upplýsingafundar almannavarna í dag. Hann sagði töluvert hafa borið á tilkynningum um að fólk væri ekki að fylgja reglum samkomubanns.
Hann sagði að af þessum sökum óttuðust yfirvöld að bakslag gæti komið í faraldurinn og að upplifunin væri sú að „fólki hafi verið létt“ þegar upplýsingar voru gefnar út um tilslakanir á samkomubanninu fyrr í vikunni. Fólk hafi þá leyft sér að fara að gera hluti sem það hefur ekki verið að gera undanfarnar vikur.
Almannavarnir á höfuðborgarsvæðinu hafa varað sérstaklega við því að hópar ungmenna safnist saman á leiksvæðum á kvöldin, en eitthvað hefur borið á því að unglingar séu að safnast saman í stórum hópum undanfarna daga.
Í samtali við Vísi fyrr í dag sagði Víðir að ef upp komi hópsmit við slíkar aðstæður eða sambærilegar gæti það hæglega sett áætlanir um slökun samkomubannsins í uppnám.
„Það er fleira fólk á ferli,“ sagði Víðir á fundinum, en bætti svo við að vissulega hefðu yfirvöld komið því á framfæri út í samfélagið að fólk mætti ekki hætta að lifa á tímum samkomubanns og það væri enn í gildi. Þó þyrfti áfram að fylgja reglunum.
Vísbendingar væru þannig að berast til almannavarnadeildar um að verið væri að skipuleggja mannamót sem ekki væru við hæfi á meðan núverandi sóttvarnaráðstafanir eru í gildi og því væri hann knúinn til þess að minna á að reglurnar hafa ekkert breyst, þrátt fyrir að tilkynnt hafi verið að ögn verði slakað á þeim 4. maí.
Tveggja metra reglan komin til að vera um nokkra hríð
Víðir minnti líka á að tveggja metra reglan verður áfram í gildi við öll mannamót, líka eftir 4. maí og að sá dagur væri enginn „endadagur“ í því samfélagslega verkefni sem verið er að fást við.
„Þetta verður erfitt, að vera með fimmtíu manna veislu í fimmtíu fermetrum, það er augljóst að það þarf meira pláss en það,“ sagði Víðir.