Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, telur að með því að slíta þingfundi fyrirvaralaust – eins og þingforseti gerði í morgun – sé hann sjálfur farinn að veikja þingið. Frá þessu greinir hún á Facebook í dag.
Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, sleit fundi í morgun eftir að Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata, gagnrýndi hann fyrir að setja umdeild mál á dagskrá þingsins þegar samkomubann væri við lýði.
„Við sem þjóð stöndum öll frammi fyrir alvarlegum vanda. Við í Viðreisn styðjum stjórnina til allra góðra verka, höfum gert það og munum gera það áfram. Nú þarf að standa saman. En með því að slíta þingfundi fyrirvaralaust eins og forseti gerði rétt í þessu er forseti sjálfur farinn að veikja þingið. Leyfir því ekki að starfa,“ skrifar Þorgerður Katrín.
Hún segir þetta vera alvarlegt og mikið áhyggjuefni. „Lýðræðið er kjarni okkar samfélags og við verðum að gera allt sem í okkar valdi stendur til að láta það virka. Ekki síst í aðstæðum sem þessum. Þar skiptir miklu að við sýnum Alþingi, elstu löggjafarsamkomu í heimi, þá virðingu að það geti haldið áfram störfum. Innan þeirra marka sem ríkt hefur samkomulag um. Að við þingmenn getum ræktað okkar lýðræðislega hlutverk sem við vorum kosin til að sinna. Stutt góð mál, komið með úrbætur og spurt mikilvægra spurninga. Við það á enginn að vera hræddur.“
Við sem þjóð stöndum öll frammi fyrir alvarlegum vanda. Við í Viðreisn styðjum stjórnina til allra góðra verka, höfum...
Posted by Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir on Thursday, April 16, 2020
„Forseti slekkur á þinginu“
Halldóra Mogensen, þingflokksformaður Pírata, gagnrýndi Steingrím harðlega í stöðuuppfærslu á Facebook í morgun en hún sagði að forseti hefði slökkt á þinginu.
„Undanfarnar vikur hafa þingmenn verið hvattir til þess að vera sem minnst á þingi og í þingsal. Einhverjir þingmenn eru í sóttkví og geta því ekki komið í þinghúsið. Staðan hefur óneitanlega áhrif á getu okkar til að taka þátt í lýðræðislegum umræðum. Hingað til hefur þetta sloppið því það hefur verið sameiginlegur skilningur þingmanna stjórnarandstöðunnar að fyrir utan fasta liði eins og óundirbúnar fyrirspurnir og störf þingsins verða einungis til umræðu og afgreiðslu brýn mál sem tengjast kóvid,“ skrifaði hún.
Hún sagði að nú horfðu þingmenn fram á það að þrátt fyrir að aðstæður hefðu ekki breyst varðandi getu þingmanna til að taka þátt í umræðum og þrátt fyrir mótmæli meirihluta stjórnarandstöðunnar hefði forseti sett á dagskrá hrúgu af ríkisstjórnarmálum sem ekki væru brýn kóvid mál og eitthvað af þeim væru umdeild mál.
„Staðan er grafalvarleg þegar forseti misnotar aðstæður til að koma málum ríkisstjórnarinnar í gegn. Málum sem eru umdeild og þarfnast augljóslega umræðu. Þetta gerir hann með þöglu samþykki ríkisstjórnarinnar og þegar við tölum um það í fundarstjórn forseta þá slekkur forseti á þinginu,“ skrifaði hún.
Forseti slekkur á þinginu. Undanfarnar vikur hafa þingmenn verið hvattir til þess að vera sem minnst á þingi og í...
Posted by Halldóra Mogensen on Thursday, April 16, 2020