Staðfest smit af kórónuveirunni eru orðin 1.739 hér á landi. Í gær voru þau 1.727 og hefur þeim því fjölgað um tólf síðasta sólarhringinn. Í dag eru 1.800 í sóttkví en í gær var fjöldinn 2.101. Alls hafa 17.093 lokið sóttkví.
Í dag eru 587 einstaklingar með virk COVID-19 smit en í gær var fjöldinn 643. Elsti sjúklingurinn er 103 ára gömul kona, íbúi á öldrunarheimilinu Bergi í Bolungarvík.
1.144 hafa náð bata.
Ellefu ný smit greindust í þeim 336 sýnum sem tekin voru á sýkla- og veirufræðideild Landspítala í gær. Af 482 sýnum sem tekin voru hjá Íslenskri erfðagreiningu fannst eitt nýtt smit. Alls hafa 38.204 sýni verið tekið hér á landi frá upphafi faraldursins.
Á sjúkrahúsi liggja 34 sjúklingar vegna COVID-19 sjúkdómsins, þar af átta á gjörgæslu, samkvæmt því sem fram kemur á vefnum covid.is.
Af þeim sem greinst hafa með COVID-19 á Íslandi eru átta látin. Sá yngsti var ástralskur ferðamaður á fertugsaldri.
Flest smit hafa greinst hjá fólki á aldrinum 18-29 ára og þar á eftir í aldurshópnum 40-49 ára. Tíu börn yngri en eins árs hafa smitast og helmingur þeirra hefur þegar náð sér af sjúkdómnum. Fimm á aldrinum 90-99 ára hafa smitast og tveir þeirra hafa þegar náð bata.