Fjármála- og efnahagsráðuneytið og Seðlabanki Íslands hafa undirritað samning um skilmála við framkvæmd á veitingu ábyrgða ríkisins á svokölluðum brúarlánum, eða viðbótarlánum lánastofnana til fyrirtækja í tengslum við heimsfaraldur veirunnar sem veldur COVID-19 sjúkdómnum. Tilkynnt var um lánin þegar ríkisstjórnin kynnti fyrsta efnahagspakka sinn í marsmánuði en síðan hefur verið unnið að útfærslu brúarlánanna. Áður en að lög sem heimila þau voru afgreidd frá Alþingi var hámarksábyrgð hins opinbera á þeim hækkuð úr 50 í 70 prósent. Lánin sem hið opinbera mun gagnast í ábyrgð á geta numið allt að 70 milljörðum króna. Með ábyrgð hins opinbera á lánunum á að tryggja að vextir af þeim verði mjög lágir.
Samkvæmt samningnum getur hver banki nýtt tiltekinn hluta af heildarumfangi ábyrgðanna. Í tilkynningu vegna þessa segir að viðbótarlánin verði að veita fyrir lok árs 2020 og hámarkslánstími frá útgáfu sé 18 mánuðir. „Horft verður til þess að ábyrgð á einstökum viðbótarlánum verður að hámarki 70 prósent. Lán til einstaks aðila munu geta að hámarki numið tvöföldum árslaunakostnaði árið 2019 og launakostnaður félags verður að lágmarki hafa verið 25 prósent af heildarrekstrarkostnaði þess árið 2019.“
Lán sem nýtur ábyrgðar frá hinu opinbera getur hæst numið 1,2 milljörðum króna.
Af þeim sökum heimilaði Alþingi Bjarna Benediktssyni, fjármála- og efnahagsráðherra, að veita ábyrgð ríkisins á hluta af viðbótarlánum sem lánastofnanir veita fyrirtækjum, að tilteknum skilyrðum uppfylltum. Síðan tóku við samningaviðræður við Seðlabanka Íslands um framkvæmd ábyrgðarkerfisins. Samningar náðust svo í dag.
Seðlabanki Íslands tilkynnti fyrr í dag að ákveðið hefði verið að bjóða fjármálafyrirtækjum í reglulegum viðskiptum við bankann sérstaka og tímabundna lánafyrirgreiðslu í formi veðlána. Í tilkynningunni sagði að fyrsta útboðið yrði haldið 22. apríl 2020. „Þetta er gert til að bregðast við því fordæmalausa ástandi sem nú varir og til þess að bjóða fjármálafyrirtækjum tímabundið aukinn aðgang að lausafé. Til samræmis við frétt frá 8. apríl sl. hefur Seðlabanki Íslands breytt reglum nr. 1200/2019 um viðskipti fjármálafyrirtækja við Seðlabanka Íslands og hafa þær breytingar verið birtar í Stjórnartíðindum. Jafnframt hefur veðlisti bankans verið uppfærður í takt við breytingarnar.“