Icelandair Group hefur tilkynnt um að félagið ætli að ráðast í hlutafjárútboð á næstunni og sækja með því aukið rekstrarfé til hlutahafa sinna.
Stærsti einstaki hluthafi Icelandair Group er bandaríski fjárfestingarsjóðurinn PAR Capital Management, sem keypti sig inn í félagið í apríl í fyrra í hlutafjáraukningu sem þá var framkvæmd. Sjóðurinn greiddi þá á 5,6 milljarða króna fyrir 11,5 prósent hlut en á nú 13,7 prósent. Næst stærsti eigandinn er Lífeyrissjóður verzlunarmanna með 11,8 prósent hlut og þar á eftir koma lífeyrissjóðirnir Gildi (7,24 prósent) og Birta (7,1 prósent). Alls eiga íslenskir lífeyrissjóðir að minnsta kosti 43,6 prósent í Icelandair Group með beinum hætti, en mögulega eiga þeir einnig meira með óbeinum hætti í gegnum nokkra fjárfestingasjóði sem eiga einnig stóran hlut í félaginu. Þessir lífeyrissjóðir munu þurfa að leggja fram aukið hlutafé eða verða þynntir út í boðuðu hlutafjárútboði.
Í tilkynningu sem félagið sendi frá sér til Kauphallar í morgun segir að flugáætlun þess sé nú tíu prósent af þeirri áætlun sem gefin hafði verið út. „Forsendan fyrir hlutafjárútboði hjá félaginu er að tryggja samkeppnishæfni félagsins til lengri tíma litið. Fyrirhugað útboð er því háð því að viðræður við stéttafélög skili árangri sem og að samþykki hluthafafundar liggi fyrir. Viðræður standa einnig yfir við aðra hagaðila, svo sem fjármögnunaraðila, flugvélaleigusala og birgja til að styrkja langtíma samkeppnishæfni félagsins enn frekar. Þá hefur félagið jafnframt verið í góðu sambandi við stjórnvöld í þessu ferli.“
Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, segir að verkefnið sem félagið standi frammi fyrir sé tvíþætt: „Að koma félaginu í gegnum það ástand sem nú ríkir í heiminum og á sama tíma tryggja að við séum í sterkri stöðu og getum sótt fram af krafti þegar eftirspurn eftir flugi og ferðalögum fer að glæðast á ný. Til að geta nýtt þau framtíðartækifæri sem munu gefast og tryggja aðkomu fjármögnunaraðila að Icelandair Group til framtíðar, er nauðsynlegt að félagið sé samkeppnishæft á alþjóðamarkaði til lengri tíma. Ég hef fulla trú á framtíð Íslands sem ferðamannalands, að landið verði áfram eftirsóttur áfangastaður og jafnframt mikilvæg tengimiðstöð alþjóðaflugs milli Evrópu og Norður Ameríku. Icelandair Group mun leggja sitt á vogarskálarnar að svo verði áfram þegar markaðir opnast á ný og þannig styðja við endurreisn ferðaþjónustunnar og um leið íslenska hagkerfisins.“
Hlutabréf í frjálsu falli og gengur hratt á laust fé
Hlutabréf í Icelandair hafa verið í frjálsu falli það sem af er ári og sem stendur er þorri flugflota félagsins ekki í notkun. Alls hafa bréfin tapað 61 prósent af verðgildi sínu á síðustu þremur mánuðum. Markaðsvirði félagsins er nú um 18,5 milljarðar króna og hefur ekki verið lægra frá því í byrjun árs 2011. Í byrjun mars fór það undir 30 milljarða í fyrsta sinn síðan í mars 2012. Hæst reis það í apríl 2016 og fór þá í 191,5 milljarð króna. Síðan þá hefur markaðsvirði íslenska flugfélagsins lækkað um 173 milljarða króna.
Fyrirtækið sagði upp 240 manns fyrir skemmstu og 92 prósent eftirstandandi starfsmanna þess voru fluttir í hlutabótaúrræði stjórnvalda, þar sem allt að 75 prósent af greiddum launum koma úr ríkissjóði.
Í síðustu viku var greint frá því að stjórnendur Icelandair væru nú að leita leiða til að styrkja fjárhag félagsins með því að styrkja hann til lengri tíma. Félagið réð Kviku banka, Íslandsbanka og Landsbankann sem ráðgjafa til að hefja skoðun á mögulegum leiðum til að ná því markmiði. Þá var greint frá því að stjórnendur Icelandair myndu vinna náið með íslenskum stjórnvöldum í því ferli. Boðuð hlutafjáraukning er meðal annars afleiðing af þeirri vinnu.
Í tilkynningu sem send var út vegna þessa í síðustu viku sagði að lausafjárstaða Icelandair, að meðtöldum óádregnum lánalínum, væri þó enn vel yfir því viðmiði sem félagið starfar eftir en stefna þess hefur verið sú að þessi staða fari ekki undir 29 milljarða króna á núverandi gengi, eða 200 milljónir Bandaríkjadala, á hverjum tíma. „Eins og tilkynnt hefur verið um, hefur félagið gripið til ýmissa aðgerða til þess að verja lausafjárstöðu sína á undanförnum vikum. Hins vegar, ef miðað er við lágmarkstekjuflæði hjá félaginu í apríl og maí, er ljóst að lausafjárstaða félagsins muni skerðast og fara undir ofangreint viðmið.“