Losun gróðurhúsalofttegunda sem er á beinni ábyrgð íslenskra stjórnvalda var svo gott sem óbreytt milli áranna 2017 og 2018 en hún minnkaði um 0,1 prósent. Niðurstöður þess efnis voru birtar í vikunni.
Elva Rakel Jónsdóttir, sviðsstjóri hjá Umhverfisstofnun, segir í samtali við Kjarnann að þessar niðurstöður komi ekki á óvart. „Þetta er í takt við það sem við höfum verið að sjá í losunartölunum undanfarið, þ.e. að þær hafi verið að breytast mjög lítið. Heildarlosun er eiginlega búin að vera óbreytt á Íslandi undanfarin 10 ár – eða til ársins 2018.“
Samkvæmt upplýsingum á vef stofnunarinnar var hámarki á losun gróðurhúsalofttegunda náð árið 2007. Eftir hrun hafi gætt töluverðs samdráttar en síðan 2011 hafi losun verið tiltölulega stöðug.
Elva Rakel segir að spennandi verði að sjá hvort aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum sem tók gildi árið 2018 beri strax mælanlegan árangur í bókhaldi næsta árs eða hvort þörf verði á að bíða lengur.
Árið 2020 verður stórmerkilegt
Varðandi árið í ár þá segir Elva Rakel að bókhaldið sem kemur árið 2022 fyrir þetta ár verði stórmerkilegt. „Vegna þess að núna er mikið minni losun í gangi í samfélaginu. Miklu minni akstur, miklu minna flug og samdráttur er á ýmsum sviðum. Það er því viðbúið að við munum sjá mikinn samdrátt í losun fyrir árið 2020,“ segir hún.
Hún bendir á að vegna þess að aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar hafi ekki tekið gildi fyrr en árið 2018 þá endurspegli þessar niðurstöður stöðuna eins og hún var áður en gripið var til þeirra aðgerða sem eru í gangi núna. „Ég myndi segja að það hafi allir væntingar um og búist við því að samdráttur verði á losun í kjölfar þess að aðgerðirnar komi til framkvæmda. En það er erfitt að segja til um nákvæmlega hversu hröð hún verður þrátt fyrir að til séu ákveðnar spár um það. Menn ættu ekki að reikna með að losunin detti niður, heldur er þetta kúrfa sem við erum að reyna að mynda. Við erum að búa til brekkuna niður á við en hún er ekki enn hafin.“
Elva Rakel segir að stóra verkefnið – jafnvel fyrir öll samfélög heimsins – sé að spyrja sig að því hvernig hægt sé að halda þessum samdrætti áfram í losun sem nú má sjá vegna COVID-19 faraldursins. „Hvernig komumst við hjá því að allt fari í blússandi losun á ný með tilheyrandi afleiðingum?“ spyr hún. Það sé verðugt verkefni.
Stjórnvöld gætu reynt að flýta aðgerðum sínum
En hvernig er hægt að halda þessum samdrætti áfram eftir að faraldrinum lýkur? Elva Rakel segir að henni finnist það sennilegt að ríki heimsins muni leggja meiri áherslu á að tímalína þeirra verkefna, sem þau ætluðu sér hvort sem er að fara í, byrji fyrr vegna þeirra aðstæðna sem upp eru komnar. „Ríkin eru búin að gera aðgerðaáætlanir sem eiga að ná til áranna 2030 eða 2040. Ríkisstjórnir heimsins gætu reynt að flýta að einhverju leyti tímalínunni á aðgerðum sínum, þannig að mögulega nái þær að grípa tækifærið sem gefst núna.“ Það væri óskandi.
Hún bendir á að auðvitað stangist ákveðnir hagsmunir þarna á, fólk þarf að hafa vinnu og hjól atvinnulífsins að snúast. „Það hljóta þó að verða breytingar á ferðamynstri – sérstaklega í tengslum við atvinnu fólks. Ég held að það hljóti að vera að fólk þurfi að fara að rökstyðja gjörðir sínar þegar það þarf að fara í ferð vegna vinnu.“ Þá sé rétt að spyrja hvort ekki nægi að hafa fjarfund.
„Nú sjáum við það að fólk getur tekið allt í fjarfundi. Það eru afskaplega fá tilefni sem kalla á ferðir. Þannig að við þurfum að fara að sjá áherslubreytingar þar,“ segir hún.
Má ekki gleyma vegasamgöngunum
Í þessum nýju niðurstöðum kemur enn fremur fram að helstu uppsprettur sem falla undir beina ábyrgð íslenskra stjórnvalda séu vegasamgöngur, olíunotkun á fiskiskipum, nytjajarðvegur, losun frá kælimiðlum og losun frá urðunarstöðum.
Elva Rakel minnist sérstaklega á hlutfall losunar frá akstri hér á landi en það er mjög hátt. „Þrátt fyrir að við Íslendingar fljúgum mikið þá má ekki gleyma vegasamgöngum. Og það er eitthvað sem stjórnvöld geta haft áhrif á; þau geta flýtt fyrir orkuskiptum í samgöngum töluvert mikið með innviðauppbyggingu, ívilnunum og ýmsum öðrum aðgerðum,“ segir hún að lokum.