Vesturverk, sem áformar að reisa Hvalárvirkjun í Árneshreppi, segir að málsókn meirihluta eigenda jarðarinnar Drangavíkur hafi engin áhrif á fyrirætlanir fyrirtækisins. „Stefnan beinist ekki að Vesturverki heldur að landeigendum og því bregðumst við ekki sérstaklega við henni,“ segir í skriflegu svari Birnu Lárusdóttur, upplýsingafulltrúa Vesturverks, við spurningum Kjarnans. „Við höldum okkar striki.“
Í grein sem birtist á mbl.is árið 2017 kom fram að Vesturverk ætti 3% hlut í jörðinni Ófeigsfirði. Var það haft eftir Pétri Guðmundssyni, stærsta eiganda jarðarinnar. Samkvæmt veðbókarvottorði útgefnu af sýslumanninum á Vestfjörðum í byrjun apríl, sem Kjarninn hefur undir höndum, eiga þrír menn, sem allir eru eigendur í Vesturverki í gegnum Glámu fjárfestingar slhf., sinn hlutinn hver í jörðinni.
Eigendur Vesturverks eru því samkvæmt heimildum Kjarnans meðal stefndu í landamerkjamálinu.
Meirihluti eigenda Drangavíkur hefur stefnt eigendum þriggja jarða í Árneshreppi og Strandabyggð og krefst þess að viðurkennd verði með dómi landamerki Drangavíkur gagnvart hinum jörðunum og þau séu eins og þeim var lýst í þinglýstum landmerkjabréfum frá árinu 1890.
Verði krafa landeigendanna staðfest mun það setja áform Vesturverks um Hvalárvirkjun í uppnám. Eyvindarfjarðará og Eyvindarfjarðarvatn, sem til stendur að nýta til virkjunarinnar, yrðu þá inni á landi í eigu fólks sem margt hvert kærir sig ekki um virkjunina. Tvær aðrar ár, Rjúkandi og Hvalá, sem einnig yrðu virkjaðar, renna hins vegar sannarlega um jörðina Ófeigsfjörð.
„Hvalárvirkjun hefur verið í undirbúningi í 14 ár,“ segir Birna í svari sínu. „Þar til síðasta sumar, þegar ýmis kærumál upphófust, höfðu engar ábendingar borist um að landamerki í Ófeigsfirði væru ekki í samræmi við öll þau opinberu gögn og landamerkjabréf, sem bæði VesturVerk og opinberir aðilar hafa unnið eftir alla tíð.“
Í stefnu landeigenda Drangavíkur kemur fram að landamerkjabréfin sem krafa þeirra byggi á, hafi verið öruggar heimildir síns tíma, verið samþykkt af eigendum jarðanna og séu þinglýstar heimildir fyrir eignarrétti. Engir samningar hafa verið gerðir eftir að landamerkjabréfin voru skráð sem breyta að mati landeigenda Drangavíkur merkjum milli jarðanna svo merkjalýsingar þeirra skulu gilda.
Ákveðið að ljúka skipulagsbreytingum
Þær fyrirætlanir Vesturverks á þessu ári, sem Birna vísar til í svari sínu og segir að stefna landeigendanna hafi engin áhrif á, eru m.a. rannsóknir á vatnafari, snjódýpt og umfangi flóða á fyrirhuguðu virkjunarsvæði. Auk þess sem áfram verður unnið að seinni hluta skipulagsbreytinga vegna virkjunarinnar. Ætla má, að sögn Birnu, að sú skipulagsvinna taki allt þetta ár. „Ákveðið hefur verið að ljúka við skipulagsbreytingarnar áður en farið verður í umfangsmeiri framkvæmdir á svæðinu, s.s. vegagerð upp á Ófeigsfjarðarheiði.“
Spurð hvort að þessar áætlanir muni standast, m.a. með tilliti til ástandsins í samfélaginu vegna kórónuveirunnar, segir Birna að svo sé. Gert sé ráð fyrir að rannsóknaráform standist og skipulagsvinna haldi áfram samkvæmt áætlun.
Hvað framhaldið varðar, s.s. byggingu sjálfrar virkjunarinnar sem er mannaflsfrekt verkefni, segir Birna að unnið verði áfram að undirbúningi. Það sé hins vegar ekki hægt að tilgreina framkvæmdatímann með vissu, eins og sakir standa.
Sex kærumál á borði úrskurðarnefndar
Landamerki jarða á áhrifasvæði fyrirhugaðrar Hvalárvirkjunar eru ekki einu deilumálin sem upp hafa komið og eru til skoðunar, m.a. hjá úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Sex kærumál sem tengjast virkjuninni eru á borði nefndarinnar. Kærur vegna ákvörðunar hreppsnefndar Árneshrepps um samþykkt deiliskipulags og samþykktar framkvæmdaleyfis fyrir vinnuvegum um hið fyrirhugaða virkjanasvæði eru þar á meðal.
Í svari lögmanns Vesturverks nú í apríl við fyrirspurn úrskurðarnefndarinnar segir „að vegna kæru- og dómsmála og þess óvissuástands sem skapast hefur vegna núverandi þjóðfélagsástands hefur umbjóðandi minn upplýst að ekki hafi verið unnin ný framkvæmdaáætlun vegna [Hvalárvirkjunar]. Ekkert liggur því fyrir um hvenær ráðgert er að hefja framkvæmdir að nýju. Ólíklegt verður að teljast að ráðist verði í nokkrar framkvæmdir á allra næstu vikum eða mánuðum.“
Í svarinu kemur ennfremur fram að Vesturverk muni tilkynna nefndinni þegar framkvæmdaáætlun hefur verið gerð og „áður en ráðist verður í nokkrar framkvæmdir á grundvelli hinna kærðu leyfa“.