Upplýsingafundur almannavarna í dag, 17. apríl, var nokkuð hefðbundinn, svipaður og hann hefur verið frá upphafi, í um fimmtíu daga.
Þríeykið okkar, Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá ríkislögreglustjóra, Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir og Alma Möller landlæknir fóru yfir helstu mál dagsins og gestur fundarins var Hildigunnur Svavarsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar á Sjúkrahúsinu á Akureyri.
Að venju fengu svo viðstaddir blaðamenn tækifæri til að spyrja sérfræðingana spurninga um faraldurinn og ýmislegt sem honum tengist.
Lokaspurningin féll blaðamanni mbl.is í skaut.
Blaðamaður mbl.is: Þegar þið þrjú fundið, hverjar eru helstu áhyggjur ykkar þessa dagana?
Þórólfur (lítur á Víði): Hvað er það sem þú hefur mestar áhyggjur af núna Víðir?
Víðir (hikandi): Ja...
Þórólfur: Þú mátt alveg segja það.
Víðir (brosandi): Jájá.
Hann verður svo alvarlegur og segir:
„Það sem við erum að velta mjög mikið fyrir okkur og er auðvitað áhyggjuefni er hvað gerist núna 4. maí. Hvernig útfærslan á þessu verður endanlega, hvernig viðbrögðin verða og hvaða afleiðingar það hefur á þau verkefni sem við erum með í þessu. Og við erum að leggja í mikla óvissuferð með það. Við erum að reyna að finna samspilið milli þess að finna bestu lausnina sóttvarnalega séð og gera það sem okkar sérfræðingar telja öruggt að gera til að koma samfélaginu í gang.
Við erum öll orðin langþreytt og höfum lagt gríðarlega mikið á okkur. Og ef maður horfir aðeins til baka í dag þá erum við búin að vera í þessu í um þrjá mánuði, frá því að við byrjuðum að vinna í þessu á fullu. Auðvitað væri það skelfilegt ef að það sem við gerum í maí myndi verða til þess að við þyrftum að byrja upp á nýtt.“
Þótt þetta hafi átt að vera lokaspurningin tókst að bæta við að minnsta kosti einni. Áður hafði meðal annars verið spurt um fjölda ferðamanna sem hafa komið hingað síðustu vikur (um tíu), um hvort knúsa mætti þá sem náð hafa bata af COVID-19 (já, það má) og hvort að kórónuveiran gæti lifað í vatni og smitað (nei, það er mjög ólíklegt).
„Við verðum að loka þessu í dag, við erum löngu komin fram yfir tímann,“ sagði Víðir þegar klukkan var langt gengin í þrjú.
Við VERÐUM
Að venju lauk hann fundinum með hvatningarorðum. Hann sagði almannavarnir vera að óska eftir hugmyndum að einhverju skemmtilegu til að gera í samkomubanni. Sagðist hann þegar hrifinn af einni hugmyndinni sem væri að hlaða Pokemon Go-leiknum aftur í símana og fara í gönguferð með börnunum að leita að þeim furðuskepnum.
Hann horfði svo beint í myndavélina, í augu áhorfenda heima í stofu, er hann lauk fundinum með þessum orðum:
„Ég vil hnykkja á þessu í lokin sem ég var að enda við að segja: Við erum öll búin að leggja gríðarlega mikið á okkur. Það er búið að loka fyrirtækjum, það er búið að setja heimsóknarbann á hjúkrunarheimili, margir eru að vinna heima, margir hafa misst vinnuna og margir sjá dimma tíma framundan í efnahagsmálum.
Við verðum að tryggja það að allt sem við gerum næstu vikurnar skemmi ekki það sem við erum búin að gera, að við lendum ekki í því núna í maí að af því að við högum okkur með óábyrgum hætti þurfi að byrja upp á nýtt. Ég veit að það vill það enginn, það ætlar sér enginn að gera það. Við verðum að vera einbeitt. Við ætlum að vinna þetta saman. Við ætlum að klára þetta. Það er dálítill tími eftir – gerum þetta saman.“