Kona á níræðisaldri sem var til heimilis á hjúkrunarheimilinu Bergi í Bolungarvík lést í gær, eftir að hafa smitast af COVID-19.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Heilbrigðisstofnun Vestfjarða, en um er að ræða annað andlátið á hjúkrunarheimilinu sem tengt er farsóttinni.
Heilbrigðisstofnun Vestfjarða vottar aðstandendum samúð, óskar starfsmönnum og heimilisfólki skjóts bata og þakkar samfélaginu þökkum aðstoð og velvilja.
Fram kemur í tilkynningu stofnunarinnar að heimilið sé enn að langmestu leyti rekið af fólki úr bakvarðasveitum, en hópsmit kom upp á hjúkrunarheimilinu í upphafi mánaðar og voru allir sem þar búa settir í sóttkví, auk þorra starfsmanna.
Þónokkur smit hafa síðan greinst á meðal íbúa og starfsmanna hjúkrunarheimilisins. Karlmaður á níræðisaldri sem bjó á Bergi lést 5. apríl.
Alls hafa nú tíu manns látið lífið eftir að hafa smitast af COVID-19 hér á landi.