Bjarni Benediktsson segir að tillögur ríkisstjórnarinnar um brúarlánaveitingar séu væntanlegar. Lánin eru ætluð fyrirtækjum sem hafa upplifað mikið tekjufall og verða með ríkisábyrgð að hluta til að tryggja lægri vexti. Viðbúið er að stór hluti þeirra mun ekki innheimtast.
Til greina kemur að sérstök eftirlitsnefnd sem skipuð verður til að fylgjast með veitingu brúarlána fái útvíkkað hlutverk. Það fari eftir því hvernig tillögum ríkisstjórnarinnar um brúarlánaveitingarnar, sem séu væntanlegar, verði tekið.
Þetta sagði Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi í dag þegar Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, spurði hann út í næsta aðgerðarpakka stjórnvalda vegna kórónuveirufaraldursins.
Næsti pakki verður kynntur á morgun. Heimildir Kjarnans herma að hann verði lagður fyrir ríkisstjórn í fyrramálið og í kjölfarið kynntur fyrir formönnum annarra stjórnmálaflokka áður en að blásið verður til kynningarfundar fyrir fjölmiðla og almenning.
Í fyrirspurn sinni sagði Þorgerður Katrín að gagnsæið í aðgerðum stjórnvalda þyrfti að vera „algjört því að hluti af því að krafturinn í viðspyrnunni verði meiri í haust með fyrirtækjunum og heimilunum er að þær aðgerðir sem við grípum til vegna þeirra fyrirtækja sem við erum að miðla fjármagni til séu trúverðugar, að traust ríki um viðspyrnuna og þannig verði krafturinn meiri. Ég beini því til hæstvirts ráðherra að við höfum leikreglurnar skýrar varðandi uppbygginguna strax frá fyrsta degi.“
Erfið fæðing brúarlána
Brúarlánin, viðbótarlánum lánastofnana til fyrirtækja í tengslum við heimsfaraldur veirunnar sem veldur COVID-19 sjúkdómnum, voru kynnt sem ein helsta viðspyrnuaðgerð stjórnvalda þegar fyrsti efnahagspakki þeirra var opinberaður 21. mars, eða fyrir nær einum mánuði síðan. Þá var þó öll útfærsla lánanna eftir, en þau eru umdeild. Í upprunalegu tillögunum voru til að mynda engar hömlur á því að fyrirtæki sem myndu fá umrædd brúarlán mættu greiða arð eða kaupa upp eigin bréf.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra greindi frá því í stöðuuppfærslu á Facebook 20. mars að málið hefði verið rætt í efnahags- og viðskiptanefnd og að nefndin gera tillögur sem tryggja myndu að fyrirtæki sem fengju ríkisábyrgð á hluta lána sinna yrði bannað að greiða út arð eða kaupa eigin hlutabréf á meðan ríkisábyrgðar nýtur.
Katrín sagði enn fremur að skipuð yrði sérstök eftirlitsnefnd sem gefi ráðherra og Alþingi skýrslu um framkvæmd brúarlána sem fara í gegnum banka.
Fjármála- og efnahagsráðherra skipar eftirlitsnefndina og nefndarmenn skulu, samkvæmt lögum, hafa þekkingu á málefnum fjármálamarkaðar. Forsætisráðherra tilnefnir einn nefndarmann í eftirlitsnefndina, samstarfsnefnd háskólastigsins einn og einn er skipaður án tilnefningar og skal hann vera formaður nefndarinnar.
Nefndin mun geta kallað eftir upplýsingum og gögnum um framkvæmd lánasamnings bæði frá Seðlabankanum og hlutaðeigandi lánastofnunum. Hún á að skila fjármála- og efnahagsráðherra skýrslu um framkvæmdina á sex mánaða fresti, í fyrsta sinn fyrir 1. nóvember 2020, en jafnframt skal hún upplýsa ráðherra án tafar ef hún verður vör við brotalamir í framkvæmdinni. Ráðherra á að leggja skýrslur nefndarinnar fyrir Alþingi.
Ógjaldfær fyrirtæki geta fengið milljarða lán á lágum vöxtum
Áður en að lögin um aðgerðir vegna kórónuveirunnar voru afgreidd frá Alþingi var hámarksábyrgð hins opinbera á brúarlánunum hækkuð úr 50 í 70 prósent.
Lánin sem hið opinbera mun gangast í ábyrgð á geta numið allt að 70 milljörðum króna en til að fá brúarlán þarf fyrirtæki að hafa upplifað 40 prósent tekjufall. Í slíkum tilvikum má ætla að fyrirtækja sé líklega ógjaldfært. Með ábyrgð hins opinbera á lánunum á að tryggja að vextir af þeim verði mjög lágir.
Fjármála- og efnahagsráðuneytið og Seðlabanki Íslands undirrituðu fyrst samning um skilmála við framkvæmd á veitingu ábyrgða ríkisins á brúarlánum í lok síðustu viku og Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) greindi frá því fyrr í dag að hún hefði samþykkt fyrirkomulagið.
Lán sem nýtur ábyrgðar frá hinu opinbera getur hæst numið 1,2 milljörðum króna.
Sagði gáleysisleg útlán hafa verið dæmd refsiverð
Brúarlánin eru umdeild af ýmsum ástæðum. Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS), benti til að mynda á það í Silfrinu í gær að hér hefði reynst flókið að koma brúarlánunum í framkvæmd.
Ástæðan væri meðal annars sú að áhættufælni í íslensku fjármálaumhverfi væri mjög mikil á síðustu árum, sérstaklega eftir að 20 dómar hafi fallið í Hæstarétti Íslands eftir bankahrunið þar sem gáleysisleg útlán hefðu verið dæmd refsiverð. Nú spyrji fjármálakerfið hvort að bankarnir eigi að fara að taka á sig hluta af áhættu á lánum til fyrirtækja sem væru ekki gjaldfær.
Jón Þór Ólason, lektor við lagadeild Háskóla Íslands, sagði við mbl.is í dag að þessi ummæli Heiðrúnar Lindar væru röng. Dómarnir dragi ekki úr eðlilegri áhættusækni fjármálafyrirtækjanna. Orðfæri Heiðrúnar Lindar væri „lögfræðilega rangt og hreint og beint óskiljanlegt.“ Til að um umboðssvik sé að ræða þurfi bæði að vera sannaður auðgunarásetningur og misnotkun á aðstöðu. Gáleysisleg útlán leiði ekki til refsiábyrgðar fyrir umboðssvik.