Stjórn Festi, sem rekur N1, Krónuna, Elko og Bakkann vöruhótel, hefur ákveðið að fresta 657 milljón króna arðgreiðslu sem til stóð að greiða hluthöfum félagsins vegna frammistöðu síðasta árs. Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu til Kauphallar Íslands.
Festi hagnaðist um 2,8 milljarða króna á árinu 2019. Um síðustu áramót var eigið fé samstæðunnar 28,7 milljarðar króna og eiginfjárhlutfallið 35,3 prósent.
Á aðalfundi Festi sem fór fram mánudaginn 23. mars 2020 hafði verið tekin ákvörðun um greiðslu arðs vegna rekstrarársins 2019. Samhliða var bókað að greiða ætti út arðinn 20. apríl 2020, eða í dag.
Stjórn Festis var hins vegar veitt heimild til að meta og taka ákvörðun um hvort rétt sé að fresta greiðslu arðsins eða fella hana niður, með hliðsjón af sjóðsstöðu og aðstæðum í rekstri samstæðu félagsins, til allt að 23. september 2020.
Stærstu eigendur Festi eru íslenskir lífeyrissjóðir.
Arion banki líka hættur við arðgreiðslur
Annað skráð félag, Arion banki, greindi frá því fyrir helgi að haldinn yrði framhaldsaðalfundur hjá bankanum í maí til að taka ákvörðun um að hætta við að greiðslu arðs vegna síðasta árs.
Arion banki hagnaðist um 1,1 milljarð króna í fyrra og arðsemi eigin fjár bankans var 0,6 prósent. Til stóð að greiða tíu milljarða króna arðgreiðslu til hluthafa vegna síðasta árs. Það stóð því til að greiða út nífaldan hagnað í arð. Þau áform eru í takti við yfirlýsta stefnu bankans, sem er að öllu leyti í einkaeigu og skráður á hlutabréfamarkað, að greiða út tugi milljarða króna eigin fé hans til eigenda hans.
Frá því að upphafleg ákvörðun um þá endurgreiðslu var tekin hefur staðan í efnahagslífinu gjörbreyst og mikið hafði verið þrýst á Arion banka að falla frá arðgreiðsunni, sérstaklega eftir að greint var frá því að sveiflujöfnunarauki, sem á að auðvelda bankakerfinu að styðja við heimili og fyrirtæki með því að skapa svigrúm til nýrra útlána sem nemur að öðru óbreyttu allt að 350 milljörðum króna, hefði verið afnumin 18. mars síðastliðinn.